Eins og kynnt var fyrir tæpum þremur vikum eru í fjárlagafrumvarpi næsta árs sérstakar aðhaldsráðstafanir sem alls eiga að skila 17 milljarða króna lækkun hallans. Bæði er um almenna aðhaldskröfu og sértækar ráðstafanir að ræða. Tekið er fram að í einhverjum tilvikum vegi „ákvörðun um ný og aukin útgjaldatilefni“ á móti aðhaldinu, en í þeim tilfellum hefði þá aukning framlaga til „tiltekinna verkefna eða framkvæmda“ verið þeim mun meiri, hefði ekki til umræddra aðhaldsráðstafana komið.
„Markmið þessara ráðstafana er m.a. að hvetja ráðuneyti og stofnanir til að leita sífellt leiða til að nýta þá takmörkuðu fjármuni sem til ráðstöfunar eru á sem hagkvæmastan hátt og skapa rými fyrir ný verkefni í samræmi við áherslur og markmið stjórnvalda sem vega á móti aðhaldskröfunni að einhverju leyti,“ segir nánar um útfærslu og tilgang ráðstafananna.
Sparnaðurinn skiptist í grófum dráttum í 9,6 milljarða króna lækkun rekstrarframlaga til undirstofnana, 5,9 milljarða lækkun fjárfestingarframlaga og 1,6 milljarða tilfærslur.
Til viðbótar þessu koma svo til framkvæmda áður óútfærðar níu milljarða króna afkomubætandi ráðstafanir sem mælt var fyrir um í fjármálaáætlun 2024-2028. Þar hafði verið gert ráð fyrir að þær skiptust til jafns milli tekju- og útgjaldahliða ríkisrekstrarins, en við vinnslu fjárlagafrumvarpsins var tekin ákvörðun um að láta þær allar falla til á útgjaldahliðinni.
Útfærslan er sögð munu felast í lækkun launa- og annars rekstrarkostnaðar, minna umfangi nýrra verkefna og almenns útgjaldasvigrúms og frestun framkvæmda. Hvað launakostnaðinn varðar verði „einkum horft til þess að nýta starfsmannaveltu en viðbúið er að grípa þurfi til uppsagna í einhverjum tilvikum. Almennt er miðað við að fjárveitingar til launa séu lækkaðar um 2,5% vegna þessa en í tilviki heilbrigðis- og öldrunarstofnana, háskóla, löggæslu og fangelsa er lækkunin einungis 0,25% þar sem áherslan er á að verja framlínustörf. Dómstólar og framhaldsskólar eru alfarið undanskildir þessari tilteknu ráðstöfun.“
Skipt niður á málefnasvið er gert ráð fyrir mestum sparnaði í launum á sviði mennta- og menningarmála, ríflega 1,1 milljarði, og öðrum gjöldum á sviði heilbrigðismála, hátt í 1,2 milljörðum, en samanlagt aðhald sviðanna verði ríflega 4 milljarðar og því hátt í helmingur þess sparnaðar sem í þeirri ráðstöfun felist.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.