Ríkisskattstjóri (RSK) hefur tekið skattskil svokallaðra áhrifavalda vegna tekjuársins 2018 til sérstakrar skoðunar. Bréf þessa efnis hafa bæði verið send áhrifavöldum sem og fyrirtækjum sem stunda við þá viðskipti.

Í upphafi árs birti RSK leiðbeiningar fyrir áhrifavalda vegna skattskila á heimasíðu sinni. Þar kom meðal annars fram að þeim sem nýta sér þjónustu áhrifavalda beri að skila upplýsingum um greiðslur til þeirra „af hvaða tagi sem er“ í janúar ár hvert. Minnt var á þá meginreglu skattaréttar að allar tekjur séu skattskyldar hvort sem þær felist í peningagreiðslu eða öðrum verðmætum.

Í Tekjublaði Frjálsrar verslunar þetta árið var að finna upplýsingar um tekjur 25 einstaklinga sem fallið hafa í flokk áhrifavalda. Talsverður munur var á tekjum þeirra en þær voru á bilinu 93 þúsund krónur á mánuði og upp í tæplega 1,5 milljónir. Miðgildið var tæpar 330 þúsund krónur. Rétt er að taka fram að í þeirri samantekt var aðeins litið til tekjuskatts einstaklinga en ekki fjármagnstekna.

Hundeltar samfélagsmiðlastjörnur

RSK er ekki eina stjórnvaldið sem hefur haft áhrifavalda undir smásjá en hið sama gildir um Neytendastofu. Reglulega hafa birst úrskurðir frá stjórnvaldinu þar sem áhrifavaldar fá skömm í hattinn fyrir að hafa ekki tilgreint að færslur þeirra feli í sér dulda auglýsingu eða viðskiptaboð. Ekki hefur dugað í slíkum tilfellum að taka fram að vara hafi fengist að gjöf.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Vignir Steinþór Halldórsson, stjórnarformaður MótX, er í viðtali og ræðir meðal annars forsjárhyggju hins opinbera.
  • Kafað er enn frekar ofan í fyrirhugaðar breytingar á samkeppnislögunum.
  • Fjallað er ítarlega um nýjustu vendingar í Brexit máli Breta.
  • Hrein ný útlán innlánastofnana til fyrirtækja hafa dregist saman það sem af er ári.
  • Ellen Ragnars Sverrisdóttir segir frá deiliþjónustu fyrir tísku sem hún hefur komið á laggirnar.
  • Kostnaður vegna hagræðingaraðgerða Íslandspósts hefur talsverð áhrif á afkomu ársins.
  • Fjölgað hefur um helming í hópi þeirra sem nýta sér íslenskar atvinnubætur meðan þeir leita að vinnu erlendis.
  • Innlit í Kauphöllina þegar viðskipti með bréf í Iceland Seafood hófust á aðalmarkaði.
  • Lekar frá stjórnvöldum og réttlætingar á þeim eru Óðni ofarlega í huga þessa vikuna.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað að venju sem og Týr .