Fyrir nokkrum árum síðan voru fjárfestar æstir í fjárfestingasjóði sem byggja á tengslum við umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti eða UFS á íslensku og ESG á ensku.
Nú er staðan önnur en samkvæmt The Wall Street Journal er verið að loka fjölmörgum slíkum sjóðum eða breyta nöfnum þeirra eftir slæma ávöxtun síðastliðinn ár.
Fjárfestar hafa verið að leysa út úr sjóðunum í Massavís samkvæmt WSJ en búið er að taka út 14 milljarða Bandaríkjadala úr ESG- sjóðum bara á þessu ári sem samsvarar ríflega 1.960 milljörðum íslenskra króna.
Íþyngjandi regluverk og háir vextir eru sagðir hafa haft slæm áhrif á hlutabréf umhverfisvænna orkufyrirtækja.
ESG- fjárfestingastefnan hefur einnig fengið óorð á sig víðs vegar í Bandaríkjunum. Í febrúar á þessu ári var stofnaður milljóna dala sjóður til að fara í herferð gegn slíkri fjárfestingastefnu eða það sem sjóðurinn kallar „Woke-capitalism“.
Á þriðja ársfjórðungi þessa árs var í fyrsta sinn sem fleiri ESG-sjóðir voru leystir upp en voru stofnaðir samkvæmt Morningstar.
Sem dæmi slengdi fjárfestingaráðgjafarfyrirtækið Hartford Fund orðinu sjálfbærni við einn sjóð sinn og fékk í kjölfarið 100 milljón dala inn í sjóðinn. Eftir dræma ávöxtun síðastliðið ár hefur félagið ákveðið að breyta um stefnu sem og nafninu á sjóðnum.