Fræðslufyrirtækið Akademias hefur fest kaup á helmingshlut í Hoobla sérfræðingaklasanum. Kaupin gengu í gegn í apríl síðastliðnum og hafa vörumerkin þegar verið tengd saman. Hoobla hóf starfsemi sína um mitt ár í fyrra og er fyrsta fyrirtæki sinnar tegundar hér á landi.
Samlegðaráhrif fyrirtækjanna tveggja eru ótvíræð, að því er kemur fram í tilkynningu. Hoobla er vettvangur sem hjálpar fyrirtækjum og stofnunum að finna réttu sérfræðingana, til lengri eða skemmri tíma, í afmörkuð verkefni og aðstoðar sömuleiðis sjálfstætt starfandi sérfræðinga við að fá verkefni. Akademias hefur frá stofnun verið vettvangur menntunar og þjálfunar sérfræðinga, hvort sem um ræðir einstaklinga eða innan fyrirtækja eða stofnana.
Harpa Magnúsdóttir, stofnandi, framkvæmdastjóri og einn eigenda Hoobla:
„Í samstarfi við Hoobla starfar fjölbreyttur hópur sérfræðinga, yfir 400 manns, á sviði mannauðsmála, gæðamála, fjármála, sölu- og markaðsmála, upplýsingatækni og stjórnunar. En skortur á aðgengi að sérfræðingum skilar sér í hröðum vexti í giggarastörfum á Íslandi. Ávinningur fyrirtækja, sérstaklega lítilla og millistórra fyrirtækja, er ótvíræður. Fyrirtæki eru þá að nýta sér þjónustu sérfræðinga og stjórnenda í 10-20% starfshlutfalli eða í tímabundin verkefni, sem þeir hefðu ekki kost á að hafa í fullu starfi.”
Dr. Eyþór Ívar Jónsson, forseti Akademias:
„Vinnumarkaðurinn er að breytast. Sífellt stærri hluti vinnumarkaðarins eru sérfræðingar sem vinna fyrir fleiri en eitt fyrirtæki til skemmri og lengri tíma. Það er hagkvæmt bæði fyrir fyrirtæki og sérfræðinga. Akademias þjálfar sérfræðinga og Hoobla opnar dyr fyrir þá að nýjum tækifærum. Þannig geta þeir sem útskrifast hjá Akademias bæði fengið nýja þekkingu og þjálfun og jafnframt áhugaverð verkefni á því sviði. Menntastofnanir bjóða jafnan ekki upp á þennan möguleika. Akademias styður líka við giggara, að þeir hafi bestu fáanlegu þekkingu og þjálfun á hverjum tíma. Þannig geta Akademias og Hoobla saman stutt íslenskt atvinnulíf til aukinnar verðmætasköpunar.”