Íbúum á Akureyri hefur fjölgað um þriðjung frá aldamótum en árið 2023 urðu íbúar fleiri en 20 þúsund. Spurð um hvað skýri aukna fjölgun kveðst Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, telja að framúrskarandi þjónusta sé ein helsta ástæðan.

„Það er engu logið um það að það er gott að vera hérna og það er góð þjónusta við íbúana. Við höfum borið gæfu til þess að vera með leikskólapláss fyrir fólk, við höfum verið að bjóða börnum frá 12 mánaða aldri pláss og höfum getað staðið við það. Svo er gríðarlegt framboð af frístundum fyrir börn og ungmenni, við erum með góða framhaldsskóla og háskóla, þetta spannar allt.“

Undanfarin ár hefur mikið verið rætt um erfiða fjárhagsstöðu sveitarfélaganna. Halli var af rekstri Akureyrarbæjar árið 2022 en afkoman var þó mikið betri en áætlanir gerðu ráð fyrir og samanborið við önnur sveitarfélög stendur Akureyrabær sig nokkuð vel.

„Reksturinn hjá okkur gengur vel, hann er þungur en við erum með fókusinn á það hver okkar kjarnastarfsemi er og erum að reyna að einblína á að gera það vel, sinna íbúunum okkar vel,“ segir Ásthildur og nefnir þá sérstaklega þjónustu við þá íbúa sem minna mega sín. „Það er það sem að við eigum að einblína á og setja skattféð í.“

Stefnt sé að því að efla sveitarfélagið enn frekar á komandi árum.

„Við erum búin að vera að vinna núna borgarstefnu með Reykjavíkurborg um að Akureyri sé svæðisborg og gegni ákveðnu hlutverki sem hin borgin og hin miðjan í landinu. Að við bjóðum upp á þjónustu sem þjóni þá hagsmunum norðaustur-, vestur- og austurhluta landsins með innviðum sem fólk getur leitað til, í heilbrigðisþjónustu, í menntamálum, í menningu og svo framvegis.“

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Fasteignamarkaður. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.