Atvinnuleysi á evrusvæðinu, sem samanstendur af nítján þjóðum, mældist 6,6% í júlí og hefur aldrei mælst minna frá því að evrópska myntkerfið var sett á stofn árið 1999. Þetta kemur fram í grein hjá Financial Times.
Til samanburðar mældist atvinnuleysi 6,7% í júní. Fjöldi atvinnulausra á evrusvæðinu fór í fyrsta skipti undir 11 milljónir manna.
Sé litið til meðaltalsstöðunnar meðal 27 ríkja Evrópusambandsins mælist atvinnuleysið 6%. Sterkur vinnumarkaður á evrusvæðinu gæti leitt til verulegra launahækkana sem um leið þrýstir á Evrópska seðlabankann að taka stærri skref í vaxtahækkunum, að því er kemur fram í grein FT.
Sjá einnig: Aldrei meiri verðbólga á evrusvæðinu
Verðbólga mældist 9,1% á evrusvæðinu í ágúst og hefur aldrei mælst meiri.
Evrópski seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 50 punkta upp í 0,5% í júlí. Sérfræðingar telja að vextirnir verði hækkaðir um 75 punkta upp í 1,25% á næsta vaxtaákvörðunarfundi bankans í næstu viku.