Söluteymi Algalífs er á leið til Japans og Kína á næstu dögum til að funda við nokkra af stærstu kaupendum náttúrulegs astaxanthíns í löndunum tveimur. Talsmenn fyrirtækisins munu einnig heimsækja vörusýninguna Health Ingredients í Tókýó í Japan.

Svavar Halldórsson, sölu- og markaðsstjóri Algalíf, segir að fyrirtækið hafi byrjað að horfa af alvöru á Asíumarkað fyrir um það bil þremur árum. Uppbyggingin hefur verið hröðust í Suður-Kóreu en þar er Algalíf með langtímasamning við fyrirtækið Samopharm.

Kínverski markaðurinn fór einnig vel af stað en heimsfaraldur og tilheyrandi aðgerðir kínverskra stjórnvalda undanfarin ár settu ákveðið strik í reikninginn.

„Sala til Kína var nánast engin árið 2022 en hún er að koma til baka á þessu ári. Reikna má með því að kínverski markaðurinn verði einn sá mikilvægasti fyrir Algalíf á næstu árum,“ segir Svavar.

Algalíf segir Ísland vera mjög hentugt land til framleiðslu á örþörungum með þeirri aðferð sem fyrirtækið notast við. Þörungarnir eru ræktaðir í glerrörum en samtals eru um 180 km af rörum í verksmiðju Algalífs í Reykjanesbæ.

„Gott aðgengi að hreinu vatni er mikilvægt. Þá krefst framleiðslan einnig töluverðrar raforku, en ljóstillifun þörunganna er tryggð með um 10.000 sérhönnuðum LED ljósalömpum. Algalíf er einnig kolefnisjafnað fyrirtæki og eini framleiðandinn á náttúrlegu astaxanthíni í heiminum sem hefur slíka vottun. Nokkuð stöðugt og kalt loftslagið á Íslandi gerir það líka að verkum að ekki þarf að huga mikið að hitun eða kælingu.“

Astaxanthíni má skipta í tvo meginflokka. Annars vegar er náttúrulegt astaxanthín sem er aðallega unnið úr örþörungum og er mest notað í fæðubótarefni. Hins vegar er líka til á markaðnum gerv-axtaxanthín sem framleitt er úr hráolíu og er eingöngu litarefni.

Svavar segir það mun ódýrara en náttúrulegt astaxanthín og sé einkum notað í fiskeldi. Það hefur engin jákvæð heilsufarsleg áhrif og bannað er að selja það til manneldis í löndum Evrópusambandsins, Bandaríkjunum, Suður-Kóreu og Japan. Það sama á við á minna þróuðum mörkuðum eins og Indlandi og Kína, en þar séu reglurnar hins vegar oft hunsaðar og gervi-astaxanthín selt sem náttúrulegt. Neytendur séu þannig blekktir til að halda að þeir séu að kaupa alvöru náttúrulegt astaxanthín með mikla heilsufarslega virkni en ekki óvirkt litarefni.

„Við reiknum með því að ná góðri fótfestu á Indlandi á næsta ári.“

„Að sumra mati eru þessar svindlvörur allt að 80% alls markaðsins í þessum löndum. En neytendur eru sem betur fer smám saman að verða meðvitaðri um þessa staðreynd og því eykst eftirspurn eftir upprunavottuðu náttúrulegu astaxanthíni jafnt og þétt bæði á Indlandi, í Kína og í öðrum Asíulöndum. Það er mjög gott fyrir okkur sem erum að framleiða hreina íslenska gæðaafurð.“

Núverandi ársframleiðsla Algalífs er um 1.500 kg af hreinu astaxanthíni. Með yfirstandandi stækkun mun ársframleiðslan rúmlega þrefaldast og verður um eða yfir 5.000 kg árlega þegar allt verður komið í fullan gang.

„Við reiknum með því að ná góðri fótfestu á Indlandi á næsta ári. Við höfum farið þangað nokkrum sinnum og tekið þátt í stærstu vörusýningunni þar á sviði fæðubótarefna. Þá sjáum við líka mikla möguleika í Tælandi, Indónesíu, Japan og víðar í álfunni,“ segir Svavar.