Tíu ár eru liðin frá stofnun Íslenska sjávarklasans en á þeim tíma hefur hann komið upp hraðli, akademíu fyrir ungt fólk, stofnun mathalla úti á Granda og á Hlemmi ásamt því að á annað hundrað fyrirtækja hafa nýtt sér aðstöðuna í Húsi Sjávarklasans við Gömlu höfnina í Reykjavík. Búið er að koma upp sex erlendum sjávarklösum með tilstilli hins íslenska.
Síðastliðin áratug hefur frumkvöðlafyrirtækjum í greininni fjölgað um 150% samkvæmt talningu Sjávarklasans, eða úr 60 í 150. Spurður um þátt Sjávarklasans í þessari þróun, segir Þór Sigfússon stofnandinn að klasinn hafi stuðlað að því að í setrinu hafi orðið til lítið vistkerfi þar sem frumkvöðlar finni fyrir nálægð við hvorn annan.
„Áður voru frumkvöðlarnir dálítið einangraðir í sinni vegferð. Í samfélaginu sem við höfum búið til fá þeir stuðning hver frá öðrum og fólk sér að í hverju herbergi eru spennandi hlutir að gerast,“ segir Þór. Hann stofnaði Sjávarklasann árið 2011 eftir að hafa skrifað doktorsritgerð um tengslanet frumkvöðlafyrirtækja.
Meiri verðmæti úr minni afla
Sex sjávarklasar hafa sprottið upp erlendis að fyrirmynd hins íslenska, þar af fimm í Bandaríkjunum og einn í Færeyjum. Þór segir samstarfið við erlendu klasana hafa orðið til eftir heimsóknir erlendra gesta, m.a. þeirra sem mættu á Arctic Circle ráðstefnuna. Þeir hafi orðið mjög hrifnir af Húsi Sjávarklasans og þeirri hugmynd að nýta allt að 100% af veiddum fisk. Nýting á afla hérlendis er um 80% sem er talsvert hærra hlutfall en erlendis.
„Við erum mjög langt á undan mörgum öðrum þjóðum í nýtingu á afla og sjálfvirknivæðingu. Það er ljóst að við gegnum gríðarlega mikilvægu hlutverki að miðla þessari þekkingu áfram, bæði til þess að bæta nýtingu afla víða um heim og auka áhugann á umhverfisþáttum tengdum hafinu. Við sjáum fyrir okkur að stór hluti af útgerðum um heiminn geti veitt minna en fengið meiri verðmæti úr aflanum með því að beita okkar aðferðum.“
Fyrirspurnir um ráð um stofnun sjávarklasa hafa borist frá öllum heimshornum, þar á meðal frá Indlandi, Suður-Ameríku, Asíu og Kyrrahafseyjunum. Þór segir að erlendir fjölmiðlar hafi sýnt mikinn áhuga á hugmyndinni um 100% nýtingu aflans sem hafi hjálpað Sjávarklasanum að koma fótunum undir þessu alþjóðlega samstarfi.
Áhuginn langt umfram væntingar
Fyrir rúmu ári síðan setti klasinn á laggarnir Sjávarakademíuna. Þar gefst nemendum kostur á að kynnast frumkvöðlastarfsemi sem tengist hafinu, læra um sjálfbærni og hvernig bæta megi umhverfi og afurðir hafsins.
„Sjávarakademían hefur verið eitt mesta undrunarefnið hjá okkur. Áhuginn er töluvert meiri en við gerðum ráð fyrir. Ungt fólk hefur því miður ekki haft mikinn áhuga á að mennta sig á þessu sviði. Við erum hins vegar búin að fá 90 umsóknir tvær annir í röð og erum mjög stolt af því.“
Sjávarklasinn opnaði fyrstu tvær mathallirnar á Íslandi, á Hlemmi og Granda, árin 2017 og 2018. Þór hafði lengi dreymt um að opna mathöll og segir að hugmyndin sé ekki ósvipuð frumkvöðlasetrinu þar sem mörg fyrirtæki deila einu rými.
„Við fundum fyrir áhuga hjá mörgum matarfrumkvöðlum að komast inn á götubitamarkaðinn. Það getur verið mjög dýrt að opna eigin veitingastaði. Við sáum okkur því leik á borði að prófa að opna mathöll fyrir minni staði þar sem kostnaður við ræstingar, umsjón og annað dreifist á milli fyrirtækja.“
Síðustu tvö ár hefur Sjávarklasinn, í samstarfi við Icelandic Startups, haldið tíu vikna hraðalinn Til sjávar og sveita. Tíu fyrirtæki eru valin að hverju sinni en áhersla er lögð á sjálfbærni og betri nýtingu hráefna í landbúnaði og haftengdum iðnaði ásamt nýjum lausnum á sviði smásölu. Þór segir að hraðallinn hafi gengið mjög vel og undirbúningur standi nú yfir fyrir hraðalinn í ár.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .