Alvotech hefur stofnað innanhússskóla til að þjálfa nýtt starfsfólk í framleiðslu líftæknilyfja. Skólinn gengur undir nafninu Alvotech Akademían og fá þátttakendur, sem valdir eru úr hópi umsækjenda, þjálfun í fullu starfi.

Greidd eru full laun meðan á þjálfuninni stendur og býðst þeim sem standast allar kröfur að því loknu framtíðarstarf.

Í tilkynningu segir að ekki sé gerð krafa um háskólagráðu eða fyrri reynslu af sambærilegum störfum. Markmiðið er þá að auka framboð af starfsfólki með þekkingu á vinnubrögðum í framleiðslu líftæknilyfja og tryggja að starfsfólkið sé vel undirbúið áður en það tekur til starfa.

„Verkefnið hefur verið lengi í undirbúningi. Við viljum koma betur til móts við vaxandi fjölda umsækjenda sem áhuga hafa á því að starfa við þennan nýja hátækniiðnað á Íslandi, en telja sig hugsanlega skorta menntun eða sambærilega reynslu. Með því að bjóða upp á hnitmiðaða þjálfun flýtum við einnig fyrir innleiðingu nýs starfsfólks,“ segir Róbert Wessman, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech.

Öll kennsla í Akademíunni er í höndum starfsmanna Alvotech og kemur fjöldi þeirra að verkefninu, af rannsóknar-, framleiðslu og gæðasviðum. Kennd eru grunnatriði lyfjaframleiðslu, með áherslu á öguð vinnubrögð, framleiðsluferla, skráningar gagna og gæðaeftirlit.