Úrvalsvísitalan lækkaði um hálft prósent í 2,9 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan, eða yfir 800 milljónir, var með hlutabréf Alvotech sem hækkuðu um 0,9%. Gengi líftæknilyfjafyrirtækisins stendur nú í 2.200 krónum á hlut.

Hlutabréfaverð Amaroq Minerals hækkaði um 0,7% í 17 milljóna veltu og stóð í 143 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar. Gengi málmleitarfélagsins, sem lauk nýlega 7,6 milljarða króna fjármögnun, hefur hækkað um 19% í ár og um 83% síðastliðið ár.

Hlutabréf Kviku banka hækkuð um 1,3%, næst mest af félögum Kauphallarinnar, í 428 milljóna veltu. Gengi bankans stendur nú í 15,75 krónum á hlut og er um 9% lægra en í byrjun árs.

Gengi Iceland Seafood International lækkaði um 4% í lítilli veltu í dag en þess má geta að hlutabréf félagsins hækkuðu um 10% á föstudaginn. Þá féll gengi Íslandsbanka um 2,3% og Marels um 1,7% í dag.