Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði síðasta áratug eiga það sameiginlegt að þeir hafa miðað að því að hækka laun þeirra tekjulægstu, meðal annars með krónutöluhækkunum, sem eru hlutfallslega mestar hjá þeim lægst launuðu, og meiri hækkunum á taxta, en innan SGS og Eflingar áætla ASÍ og SA að um það bil helmingur félagsmanna sé á taxtalaunum.
Í núverandi kjaralotu hefur Breiðfylking stéttarfélaga farið fram á krónutöluhækkanir, aðhald hjá bæði ríki og sveitarfélögum, og forsenduákvæði sem heimila uppsögn samningsins ef markmið um verðbólgu og vexti nást ekki.
Í kjarasamningnunum sem undirritaðir voru árið 2015, og síðan endurskoðaðir 2016, var kveðið á um krónutöluhækkanir á kauptaxta og prósentuhækkun á mánaðarlaun utan taxta, í Lífskjarasamningunum 2019 var alfarið samið um krónutöluhækkanir, og í skammtímasamningunum síðasta vetur samdi SGS um krónutöluhækkanir, og var miðlunartillaga Eflingar í svipuðum dúr, en VR, LÍV og samflot félaga iðn- og tæknigreina sömdu um prósentuhækkanir.
Aðkoma stjórnvalda að kjarasamningum jókst þá á tímabilinu. Árið 2015 voru aðgerðir ríkisstjórnarinnar í ellefu liðum og sneru að ýmsum sviðum skatta- og velferðar- og húsnæðismála sem og úrbótum á sviði hagstjórnar og opinberra fjármála. Í Lífskjarasamningunum boðaði ríkisstjórnin síðan 45 aðgerðir og var heildarumfang þeirra á samningstímabilinu metið á um 80 milljarða króna.
Einnig er að finna ýmis forsenduákvæði í lengri samningum, til að mynda voru forsendur Lífskjarasamningsins að kaupmáttur launa myndi aukast á samningstímabilinu, vextir lækka verulega fram að endurskoðun í september 2020 og haldast lágir út samningstímann og að stjórnvöld stæðu við gefin fyrirheit.
Rétt er þó að taka fram að töluvert meiri óvissa er í efnahagslífinu í dag heldur en þegar fyrrnefndir samningar voru undirritaðir. Ríkissjóður er rekinn með halla, sem aðeins mun aukast vegna náttúruhamfaranna í Grindavík, og útlitið er svart hjá mörgum atvinnurekendum.
Nánar er farið yfir kjaramálin og þróun síðasta áratug í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.