Í tilefni þeirrar stöðu sem nú er komin upp í kjaraviðræðum er vert að fara yfir þróun launa síðustu ár.

Frá árinu 2015 til 2023 hækkaði launavísitalan, sem byggir á tímakaupi reglulegra mánaðarlauna, um 81,8% og vísitala grunnlauna um 78,4%. Á sama tímabili hækkaði vísitala neysluverðs aðeins um 38,5%. Hvað framleiðni vinnuafls varðar nam aukningin frá 2015 til 2022 10,5%.

Mesta hækkunin milli ára var milli 2015 og 2016, þar sem launavísitalan hækkaði um 11,4% og vísitala grunnlauna um 10,9%, en milli 2022 og 2023 var hækkunin 9,8 og 9,5%. Launavísitalan nær til starfsmanna á öllum mörkuðum en starfsmenn á opinbera markaðnum hafa hækkað meira í launum síðustu ár en starfsmenn á almenna markaðnum.

Launavísitala eftir launþegahópum fyrir árið 2023 hefur ekki verið birt en ef miðað er við tímabilið 2015-2022 hækkaði launavísitala starfsmanna á almennum vinnumarkaði um 63,6% og launavísitala opinberra starfsmanna hækkaði um 71,4%. Gera má ráð fyrir að talsverð aukning hafi átt sér stað milli 2022 og 2023.

Hækkun á almenna vinnumarkaðnum eftir starfsstétt á umræddu tímabili var mest hjá verkafólki og þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólki, eða 75,3 og 75,2%, en minnst hjá stjórnendum og sérfræðingum, eða 45,5 og 55,3%.

Nánar er farið yfir kjaramálin og þróun síðasta áratug í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.