Arctic K2 ehf., dótturfélag Arctic Adventures ferðaþjónustusamstæðunnar, gekk fyrr í sumar frá sölu á 2.952 fermetra atvinnuhúsnæði að Köllunarklettsvegi 2 við Sundahöfn í Reykjavík. Kaupverðið nam einum milljarði og fimmtíu milljónum króna en kaupandinn er Bílaréttingar og bílasprautun Sævars ehf, rekstrarfélag Bílaréttinga Sævars.

Arctic K2 ehf. er dótturfélag ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic Adventures og var stofnað í september árið 2022. Félagið keypti fasteignina af félaginu Landbergi ehf., sem er í eigu fjárfestahjónanna Hjörleifs Þórs Jakobssonar og Hjördísar Ásberg, í október árið 2022 fyrir 987,5 milljónir króna. Fasteignin hækkaði því um 62,5 milljónir króna í verði á því rúma eina og hálfa ári sem hún var í eigu Arctic K2.

Höfuðstöðvar Arctic Adventures eru staðsettar í húsnæðinu, sem og höfuðstöðvar Iceland Seafood International sem skráð er á Aðalmarkað Kauphallarinnar.

Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.