Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Arctic Theory hyggst ráða í um tuttugu nýjar stöður í tengslum við þróun tölvuleiks og tæknilausnar en félagið er að byggja undirstöðutækni fyrir fjölspilunarleiki (e. multiplayer games) og samfélagsheima (e. Metaverse).
Stöðurnar sem félagið leitast við að ráða í eru meðal annars; markaðsstjóri, listrænn stjórnandi, yfirframleiðandi, leikjahönnuður, leikjaforritari, framendaforritari, bakendaforritari og grafískir hönnuðir.
Fyrr á árinu tryggði Arctic Theory sér 260 milljóna króna fjármögnun frá Brunni vaxtarsjóði II sem stýrt er af Brunni Ventures og Landsbréfum.
„Við erum í miðri þróun á fyrsta fjölspilunarleik okkar sem verður aðgengilegur á næstu mánuðum ásamt því að búa til grunn fyrir nýja tegund af samfélagsheimum. Við höfum verið að kynna leikinn fyrir erlendum útgefendum og það er mikill áhugi á að fá leik inn á markaðinn með áherslur á samvinnu milli spilara,” segir Gísli Konráðsson, einn af stofnendum Arctic Theory.
„Tæknin sem við höfum byggt upp í kringum leikinn er einnig farin að vekja athygli erlendis og þess vegna höfum við ákveðið að stækka teymið okkar hratt til að geta nýtt þessi tækifæri. Meginþorri nýs starfsfólks mun starfa í höfuðstöðvum okkar í Hafnarfirði þar sem okkur hefur liðið mjög vel síðastliðin tvö ár. Það er einnig ánægjulegt að hafa tækifæri til að stækka tölvuleikjaiðnaðinn á Íslandi enn frekar, en hann hefur verið í örum vexti síðastliðin ár.“
Arctic Theory var stofnað í júní árið 2020 af þeim Matthíasi Guðmundssyni, Gísli Konráðssyni, Snorra Sturlusyni og Jóni Bjarna Bjarnasyni. Stofnendurnir fjórir eru með áralanga reynslu í tölvuleikjaiðnaðinum og hafa komið að tölvuleikjum á borð við EVE Online og The Sims. Einnig hafa þeir tekið þátt í uppbyggingu stærstu tölvuleikjafyrirtækja á Íslandi í gegnum árin. Má þar nefna CCP Games, 1939 Games, Parity Games og Directive Games.