Bílaumboðið Hekla hagnaðist um 742 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 63 milljóna hagnað árið 2020. Bætt afkoma skýrist einkum af aukinni framlegð og gengismun. Félagið greiddi út 900 milljónir króna í arð á síðasta ári og hyggst greiða arð að fjárhæð 500 milljónir króna í ár vegna síðasta rekstrarárs. Auk þess keypti Hekla 10% af eigin bréfum fyrir 110 milljónir króna með það í huga að lækka útgefið hlutafé.

Hekla er í fullri eigu Friðberts Friðbertssonar. Félagið hans Riftún eignaðist allt hlutafé Heklu í lok árs 2020 með kaupum á helmingshlut í félaginu af Semler, sem á og rekur umboð fyrir Volkswagen bifreiðar í Danmörku. Friðbert átti fyrir helmingshlut á móti Semler.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá á sínum tíma hljóðaði kaupverðið upp á rúma 1,4 milljarða króna miðað við upplýsingar í ársreikningi Semler.

Í ársreikningi Riftúns fyrir árið 2020 kemur fram að félagið hafi tekið langtímalán að fjárhæð 1.421 milljón með veði í eignarhlutum félagsins í Heklu og systurfélaginu Heklu fasteignum.

Eignir Heklu námu 2,9 milljörðum króna í lok síðasta árs. Bókfært eigið fé var 1.358 milljónir króna og eiginfjárhlutfall félagsins því 46,7%.

Sjá einnig: Kaupa allar fasteignir á Heklureit

Eignir Heklu fasteigna, sem hélt utan um fasteign bílaumboðsins á Laugavegi, voru bókfærðar á rúma 2 milljarða króna og eigið fé var neikvætt um 54 milljónir í lok síðasta árs. Í ársreikningi félagsins segir að unnið sé að undirbúningi nýrra höfuðstöðva fyrir bílaumboðið en Heklureiturinn var seldur til Framkvæmdafélagsins Laugavegar í byrjun þessa árs.

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 2.749 kr. á mánuði