Þær Katla Sif Friðriksdóttir og Ásdís Bjarkadóttir hafa gengið frá kaupum á kynlíftækjaversluninni Lovísu sem hefur skapað sér sess á unaðstækjamarkaðinum frá stofnun árið 2021.
Jón Þór Ágústsson, stofnandi Lovísu, ákvað að einbeita sér að öðrum verkefnum og hafði, ásamt meðeigendum sínum, samband við Ásdísi og Kötlu Sif í haust.
„Okkur fannst þetta spennandi tækifæri en við höfum alltaf borið mikla virðingu fyrir eigendum Lovísu. Þau vildu að verslunin færi í hendurnar á einhverjum sem getur tekið boltann áfram og hefðu metnað og kraft til að taka fyrirtækið lengra,“ segir Katla.
Taka við Lovísu á annasamasta tíma ársins
Söluferlinu lauk á dögunum og fengu þær afhenta lykla að lageraðstöðu félagsins og tóku formlega við rekstrinum.
„Þetta er kannski ekki eitthvað sem ég hafði séð fyrir mér í framtíðarplönunum en við erum að taka við fyrirtæki sem er afskaplega vel rekið og við sjáum fullt af tækifærum til að vaxa frekar svo við urðum að stökkva á þetta. Þó svo að við séum að taka við á einum annasamasta tíma netverslana,” segir Katla.
„Við viljum halda uppi þeirri góðu þjónustu sem fyrri eigendur gerðu svo vel. Viðskiptavinir sækja í þjónustuna og auðvitað lága verðið. Þó svo að samkeppnin sé mikil á þessum markaði trúum við að það sé pláss fyrir okkur og okkar hugsjónir. Nú er komið að okkur að standa okkur.“