Tveir nýir stjórnarmenn í Kaldalóni hf. keyptu í félaginu síðastliðinn föstudag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kaldalóni til Kauphallarinnar.

Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri SKEL fjárfestingafélags og stjórnarformaður Kaldalóns hf., keypti 10 milljón hluti í félaginu fyrir 18,8 milljónir króna í gegnum félag sitt BBL VII ehf.

Magnús Ingi Einarsson, fjármálastjóri SKEL fjárfestingafélags og stjórnarmaður í Kaldalóni hf., keypti einnig 10 milljón hluti í Kaldalóni fyrir 18,8 milljónir króna í gegnum félag sitt Hokies ehf.

SKEL fjárfestingafélag er eigandi yfir 10% útgefnu hlutafjár í Kaldalóni og eigandi alls hlutafjár í Orkan IS ehf. sem er leigutaki hjá Kaldalóni. Ásgeir og Magnús hafa setið í stjórn Kaldalóns frá maí 2022.

Gengi bréfa Kaldalóns stendur nú í 1,85 krónum á hlut og hefur lækkað um 7,5% frá áramótum.