Auk skuldbindinga Íslands samkvæmt Parísarsáttmálanum hafa íslensk stjórnvöld sett sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt í losun á beinni ábyrgð Íslands fyrir 2030. Árið 2022 nam samdráttur 12% miðað við losun árið 2005.

Ljóst er að aukin orkuþörf fylgi markmiðum um minni losun en samkvæmt stjórnarsáttmála er reiknað með að Ísland nái fullum orkuskiptum og verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040.

Framleiddar eru um 20 teravattstundir (TWst) af raforku hérlendis á ári en samkvæmt nýjustu raforkuspá Landsnets er reiknað með að raforkuþörf muni aukast um hátt í 22 TWst til ársins 2050. Aðrar greiningar gera jafnvel ráð fyrir enn meiri orkuþörf.

Líkur eru á aflskorti næstu árin en áform um nýjar vatnsafls- og jaðvarmavirkjanir auk stækkunar núverandi virkjana duga ekki ein og sér fyrir orkuskiptunum. Því verður til lengri tíma nauðsynlegt að notast við nýja breytilega orkugjafa auk þess sem þörf er á hnitmiðuðum aðgerðum frá stjórnvöldum.

Samdráttur um 1,4 milljón tonn

Stærsti hluti losunar á beinni ábyrgð Íslands kemur frá vegasamgöngum, landbúnaði og fiskiskipum, um 72%.

Alls nam losun á beinni ábyrgð Íslands 2,8 milljónum tonna af koltvísýrings-ígildum árið 2022, þar af voru 926 þúsund tonn frá vegasamgöngum, 604 þúsund tonn frá landbúnaði og 484 þúsund tonn frá fiskiskipum.

Til þess að Ísland nái markmiðum sínum um 55% samdrátt í losun á beina ábyrgð má losunin árið 2030 ekki nema meira en 1,4 milljónum tonna CO2-ígilda. Að óbreyttu mun samdráttur í losun þó aðeins nema 26% árið 2030 og því ljóst að þörf er á frekari aðgerðum.

Nánar er fjallað um málið í Orku og Iðnaði, sérblaði Viðskiptablaðsins sem kom út á miðviðkudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.