Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur skipað í nýja stjórn Fjármálaeftirlitsins. Formaður stjórnar er Ásta Þórarinsdóttir og tekur hún við af Höllu Sigrúnu Hjartardóttur, en sú síðarnefnda baðst undan endurskipun. Ný stjórn er skipuð til fjögurra ára í senn.
Ástæða þess að Halla Sigrún sóttist ekki eftir skipun mun hafa verið umfjöllun fjölmiðla um viðskipti Höllu með bréf í færeyska félaginu P/F Magn, en ýmis óvissuatriði eru enn uppi í tengslum við viðskiptin. Íslandsbanki lýsti því við Viðskiptablaðið í byrjun nóvember á seinasta ári að ekki væri útilokað að það myndi gefa út aðra kæru á hendur Höllu Sigrúnu vegna þessara viðskipta.
Hefur reynslu af verðbréfamarkaði
„Ásta starfaði hjá bankaeftirliti Seðlabanka Íslands frá 1994 og síðar Fjármálaeftirlitinu allt til ársins 2005. Hún er framkvæmdastjóri Evu ehf. móðurfélags Sinnum, sem starfar á velferðarsviði," segir í tilkynningu á vef fjármálaráðuneytis.
„Ásta hefur setið í mörgum stjórnum og nefndum bæði á einkamarkaði og hjá hinu opinbera, s.s. hjá Jöklum – verðbréfum, Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, ISB Holding, LÍN og Yfirfasteignamatsnefnd," segir jafnframt.
Auk Ástu taka eftirfarandi sæti í stjórn FME:
- Tómas Brynjólfsson, aðalmaður (varaformaður)
- Arnór Sighvatsson, aðalmaður,
- Friðrik Ársælsson, varamaður,
- Ástríður Jóhannesdóttir, varamaður
- Harpa Jónsdóttir, varamaður