Ríkisstjórn Ástralíu hefur ákveðið að hætta að bjóða upp á hina svokölluðu gullnu vegabréfsáritun sem gerði auðugum erlendum fjárfestum kleift að búa í landinu. Áritunin var upphaflega gerð til að laða til sín erlend fyrirtæki til að styðja við ástralska efnahaginn.
Gagnrýnendur hafa hins vegar lengi haldið því fram að kerfið væri notað af spilltum embættismönnum sem notuðu Ástralíu til að fela ólöglega fjármuni.
Þúsundir vegabréfsáritana hafa verið afgreiddar fyrir erlenda fjárfesta síðan kerfið var sett í gang árið 2012 og hafa rúmlega 85% allra umsókna komið frá Kína samkvæmt áströlskum stjórnvöldum. Markmiðið var að ýta undir erlenda fjárfestingu og nýsköpun en umsækjendur þurftu að fjárfesta minnst 3,3 milljónir Bandaríkjadala í ástralska efnahaginn til að fá áritunina.
Eftir langa rannsókn hefur ríkisstjórnin hins vegar komist að því kerfið hafi ekki uppfyllt þetta markmið og myndi ríkisstjórnin frekar einbeita sér að því að laða til sín hæfari faglærða verkamenn sem geta lagt sitt af mörkum til Ástralíu.
„Það hefur verið augljóst í mörg ár að þessi vegabréfsáritun hefur ekki skilað landinu okkar því sem það þarfnast,“ sagði Clare O‘Neil, innanríkisráðherra Ástralíu, í yfirlýsingu í dag.
Clancy Moore, forstjóri Transparency International Australia, fagnar þessari ákvörðun og segir í samtali við fréttastofuna BBC að of margir hafi misnotað kerfið í of langan tíma. „Allt of lengi hafa spilltir embættismenn og kleptókratar notað gullna vegabréfsáritunina til að koma ólöglegum fjármunum sínum til Ástralíu til að fela glæpi sína heima fyrir.“
Bretar tóku einnig svipaða ákvörðun árið 2022 og felldu niður sitt kerfi sem flýtti fyrir búsetu auðugra fjárfesta vegna áhyggna um að kerfið yrði notað af rússneskum ólígörkum.