Ástralska netöryggiseftirlitið hefur sektað samfélagsmiðilinn X (áður Twitter) um 386 þúsund Bandaríkjadali fyrir ósamvinnuþýðni í rannsókn sinni sem tengist ofbeldi gegn börnum.
Sektin kemur rúmlega ári eftir að Elon Musk, eigandi X, sagði í færslu að útrýming á slíku efni væri stærsta forgangsverkefni fyrirtækisins.
Öryggiseftirlitið segir að stefna fyrirtækisins í þeim efnum sé ekkert annað en tómt tal og hafa sérfræðingar sagt við fréttastofuna BBC að X sé ekki í stakk búið til að takast á við vandamálið vegna fjölda uppsagna hjá fyrirtækinu.
Samkvæmt áströlskum lögum sem tóku gildi árið 2021 getur netöryggiseftirlitið krafið fyrirtæki um upplýsingar um starfsemi sína á netinu. Ef fyrirtækið afhendir ekki viðeigandi gögn getur það átt yfir höfði sér sekt. Verði sektin ekki greidd getur eftirlitsstofnunin stefnt fyrirtækinu fyrir dómstól.
Samfélagsmiðillinn hefur greint frá því við eftirlitsstofnunina að það hafi fækkað starfsfólki sínu um 80% á heimsvísu og sé ekki með neinn starfsmann í Ástralíu. Twitter var áður með tvo starfsmenn í landinu áður en Elon Musk tók yfir.
Í síðasta mánuði var X einnig gagnrýnt í Ástralíu fyrir að hafa slökkt á eiginleika innan forritsins sem gerði notendum kleift að tilkynna rangar upplýsingar um kosningar í landinu.