Baldvin Már Hermannsson, forstjóri flugfélagsins Atlanta, segir að Atlanta þjónusti bæði stóra alþjóðlega flutningsaðila, sem og flugfélög. Í heildina séu brottfarirnar um það bil 30 á degi hverjum.
„Það hefur tekið langan tíma að byggja upp viðskiptasamböndin því þau byggja auðvitað á trausti,“ segir Baldvin. „Við fljúgum sem dæmi fyrir Saudi Arabian Airlines og Network Aviation."
„Við erum að fljúga með farm fyrir Temu, Shein og nánast alla þessa stóru flutningsaðila. Við flytjum mikið af bílavarahlutum fyrir BMW frá Þýskalandi til Bandaríkjanna. Við flytjum um það bil 200 tonn á dag af blómum og ferskvöru frá Kenía til Evrópu. Þetta eru blómin sem fara á markaði í Hollandi og Belgíu og seljast jafnframt hingað heim."
„Við finnum líka fyrir þeim ótrúlega vexti, sem hefur orðið í netverslun því flutningar okkar fyrir Temu og Shein eru vaxandi hluti af okkar fraktstarfsemi. Þetta hefur breyst mikið á einu til tveimur árum.
Að sögn Baldvins flýgur Atlanta með allt mögulegt.
„Til viðbótar við það sem ég hef þegar nefnt þá flytjum við dýra sérsmíðaða bíla, veðhlaupahesta, Formúlu 1 bíla, peningasendingar og raun allt milli himins og jarðar. Ef einhver ætlar að flytja verðmætan farm þá er nánast gefið mál að viðkomandi flytur hann með flugi. Það er bæði öruggara og hraðvirkara.”
Atlanta er í dag með 17 flugvélar í rekstri. Þar af eru fjórar Boeing 777-300ER farþegavélar og þrettán Boeing 747-400 fraktvélar. Þetta eru stórar og öflugar vélar sem bera allt að 495 farþega eða 120 tonn af frakt. Til að setja þessar stærðir í samhengi fyrir lesendur þá ber Boeing 767-300, stærsta vel Icelandair, alls 262 farþega eða rétt um 50 tonn af frakt.
„Þetta eru stórar og öflugar vélar sem við erum með. Þær eru hannaðar til að fljúga langar leiðir og myndu ekki henta vel í flug til og frá Íslandi. Leiðakerfið sem Atlanta er að þjónusta fyrir sína viðskiptavini er orðið feikilega víðfeðmt og beintengt slagkrafti heimshagkerfisins. Til marks um það flugum við alls til um 160 áfangastaða í 92 löndum á síðasta ári.”