Atlantsolía hagnaðist um 590 milljónir króna eftir skatta árið 2023 samanborið við 402 milljónir árið áður. Félagið gerir ráð fyrir að reksturinn í ár verði með sambærilegum hætti og hann var á árinu 2023, að því er segir í nýbirtum ársreikningi.

Atlantsolíu rekur 25 sjálfsafgreiðslustöðvar, þar af 16 á höfuðborgarsvæðinu. Tekjur félagsins drógust saman um 8% milli ára, úr rúmum 9,9 milljörðum króna í 9,1 milljarð. Kostnaðarverð seldra vara lækkaði um 15% milli ára og nam 7 milljörðum.

Rekstrarhagnaður Atlantsolíu jókst um 36% milli ára og nam 850 milljónum króna. Rekstrarhagnaðurinn hefur aldrei verið meiri í sögu félagsins.

„Rekstur félagsins gekk vel á árinu 2023,“ segir í skýrslu stjórnar í nýbirtum ársreikningi. „Helstu óvissuþættir sem félagið býr við eru sveiflur á heimsmarkaðsverði á eldsneyti og aukning í notkun rafmagnsbíla en ekki er gert ráð fyrir að það muni hafa veruleg áhrif á rekstur félagsins á árinu 2024.“

Eignir Atlantsolíu ehf. voru bókfærðar á 6,1 milljarð króna í árslok 2023. Eigið fé var um 1,5 milljarðar og skuldir 4,6 milljarðar.

Félagið hyggst greiða út 500 milljónir til móðurfélagsins Atlantsolíu Investments ehf., sem er í eigu Guðmundar Kjærnested og Brandon C. Rose. Guðrún Ragna Garðarsdóttir er framkvæmdastjóri Atlantsolíu.