Fasteignafélagið Kaldalón hefur aukið hlutafé sitt með útgáfu á rúmlega tveimur milljörðum nýjum hlutum sem nemur 28% af útgefnu hlutafé félagsins. Hlutirnir voru seldir hæfum fjárfestum sem samanstanda af lífeyrissjóðum, verðbréfasjóðum, vátryggingarfélögum og fjármálafyrirtækjum.

Samtals voru seldir 2.222.222.222 hlutir á genginu 1,8 en sölugengið nemur meðalgengi Kaldalóns á First North við lok markaða síðustu 10 viðskiptadaga. Heildarsöluvirði nýju hlutanna nemur því 4 milljörðum króna. Samtals fjöldi útgefinna hluta eftir aukninguna eru rúmir 10 milljarða og nemur virði þeirra 18 milljörðum króna miðað við sölugengið 1,8.

Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Kaldalóns:

„Ég er afar ánægður með útgáfu nýs hlutafjár til fjárfesta í dag. Það að félagið hafi í dag selt hlutafé fyrir 4 milljarða og aukið þar með hlutafé um 28% er til marks um það að fjárfestar hafi trú á þeirri vegferð sem félagið er á. Einnig er ég ánægður með að hafa breikkað hluthafahópinn með svo afgerandi þátttöku stofnanafjárfesta.

Kaldalón kynnti í gær árshlutauppgjör og markmið félagsins á næstu misserum um áframhaldandi vöxt. Innkoma nýrra fjárfesta í félagið er mikilvægur áfangi í þeirri framtíðarsýn og í kjölfar hlutafjárhækkunarinnar er félagið með afar sterka lausafjárstöðu og vel í stakk búið til að grípa þau fjárfestingatækifæri sem gætu skapast á næstunni.

Við bjóðum nýja hlutahafa velkomna í hópinn.“