Undanfarin ár hefur mikil uppbygging átt sér stað í miðbæ Reykjavíkur, þá sérstaklega á hafnarsvæðinu sem nær frá Hörpu að Hafnartorgi. Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa, sem opnað var árið 2011, er fyrsta byggingin sem reis á svæðinu og liðu sjö ár þar til næsta bygging á svæðinu var opnuð - þegar Hafnartorg var opnað í lok síðasta árs.
Hafnartorg
Hafnartorg samanstendur af alls sjö byggingum sem eru alls 23.350 fermetrar, þar af 8.000 fermetrar undir þjónustu og verslun og 6.400 fermetrar undir skrifstofurými. Auk þess er þar að finna 76 íbúðir í mismunandi stærðum. Undir Hafnartorgi verður svo stærðarinnar bílastæðakjallari sem nær alla leið að Hörpu. Samkvæmt heimasíðu Hafnartorgs hefur þegar verið hafin sala á á íbúðum í einni byggingunni á Hafnartorgi og fimmtán íbúðir þegar selst. Verslun sænsku fatakeðjunnar H&M hefur einnig verið opnuð á Hafnartorgi og fleiri verslana er að vænta á Hafnartorg, má þar helst nefna COS, sem er verslunarkeðja í eigu H&M. Kostnaður við framkvæmdirnar er sagður nema um þrettán milljörðum króna.
Austurhöfn - hótel, íbúðir og verslun
Við hlið Hörpunnar á Austurhafnarsvæðinu eru framkvæmdir við nýjar byggingar í fullum gangi. Glæsilegt fimm stjörnu hótel á vegum bandarísku hótelkeðjunnar Marriott, sem mun heita Reykjavik Edition, mun koma til með að vera á svæðinu og er stefnt að opnun þess á næsta ári.
Auk þess rísa nú byggingar sem samanstanda af 71 íbúð, sem staðsett verður á efstu fimm hæðum bygginganna. Á jarðhæðunum verður svo verslunar- og þjónusturými, en fasteignafélagið Reginn hefur þegar keypt allt þetta rými. Hefur þetta fyrrnefnda verkefni fengið heitið Austurhöfn og er stefnt á að framkvæmdum verði lokið síðar á þessu ári.
Undir byggingunum verður svo bílakjallari sem verður meðal annars ætlaður fyrir íbúa og hótelgesti. Bílakjallarinn verður tengdur við Hörpu og Hafnartorg.
Eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum þá hefur áætlaður kostnaður við byggingu hótelsins hækkað. Upphaflega var gert ráð fyrir því að hann yrði um 16 milljarðar, en í uppfærðri áætlun er gert ráð fyrir að kostnaðurinn gæti numið allt að 17,5 milljörðum króna. Áætlaður kostnaður Austurhafnarverkefnisins hefur ekki verið gefinn upp. Samkvæmt forsvarsmönnum verkefnisins hleypur kostnaðurinn á milljörðum, en þegar Viðskiptablaðið leitaðist eftir nákvæmari upplýsingum um kostnað vildu þeir ekki gefa það út að svo stöddu.
Íbúðirnar í Austurhöfn verða 71 talsins. Verslunar- og þjónusturými verður á jarðhæð.
Langþráðar höfuðstöðvar
Nýjar höfuðstöðvar Landsbankans munu svo koma til með að rísa við Austurhöfn. Bankinn hefur lengi haft hug á því að koma miðlægri starfsemi sinni undir eitt þak en eins og staðan er í dag dreifist sú starfsemi í fjölda bygginga í Kvosinni í miðbæ Reykjavíkur, og víðar. Fyrir um það bil ári greindi bankinn frá því að ákveðið hefði verið að ganga til samninga við Arkþing ehf. og C.F. Møller um hönnun og þróun nýju höfuðstöðvanna. Áætluð verklok liggja ekki fyrir en samkvæmt upplýsingum frá bankanum er reiknað með að verkefni af slíkri stærðargráðu geti tekið þrjú til fjögur ár í framkvæmd.
60,5 milljarða framkvæmdir
Þegar samanlagður kostnaður við framkvæmdir ofangreindra mannvirkja er tekinn saman nemur hann 60,5 milljörðum króna, en þess ber þó að geta að inni í þá tölu vantar kostnað vegna Austurhafnarverkefnisins. Því er talan nokkrum milljörðum hærri þegar sú framkvæmd er tekin inn í myndina. Samanlögð stærð mannvirkjanna nemur 104.350 fm.
Framkvæmdir eru í fullum gangi á Austurhafnarsvæðinu.
Nánar má lesa um málið í Fasteignamarkaður, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .