Fasteignafélagið Reginn skilaði rúmlega 3,6 milljarða hagnaði á fyrri hluta árs, en það er 13% aukning frá sama tímabili í fyrra. Matsbreyting fjárfestingareigna jókst verulega á milli ára og fór úr 3,9 milljörðum í 6,3 milljarða. Þetta kemur fram í árshlutareikningi félagsins. Hagnaður Regins á fyrri hluta árs skiptist þannig að félagið hagnaðist um rúma 1,5 milljarða á fyrsta ársfjórðungi og um 2,1 milljarða á öðrum ársfjórðungi.
Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu á fyrri hluta árs jókst um 11% á milli ára, fór úr 3.524 milljónum í 3.910 milljónir. Leigutekjur jukust um 10% á milli ára og námu rúmum 5,4 milljörðum á fyrstu sex mánuðum ársins. Á sama tíma jókst rekstrarkostnaður um 9,5% á milli ára og fór úr 1,7 milljörðum í 1,85 milljarða.
„Afkoma félagsins er í samræmi við áætlanir og er reksturinn stöðugur og traustur. Mikill og vaxandi kraftur virðist einkenna atvinnulífið. Eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði er góð, vanskil í lágmarki og greinileg merki um aukin umsvif í ferðageiranum. Greiðslugeta og greiðsluvilji viðskiptamanna félagsins er kominn í eðlilegt horf. Óvissa vegna COVID-19 er að mati stjórnenda félagsins hverfandi og hefur ekki áhrif á leigutaka,“ segir í tilkynningu félagsins.
Vaxtaberandi skuldir voru 106,5 milljarðar í lok júní samanborið við 96 milljarða í lok árs 2021. Eigið fé félagsins er bókfært á 54,7 milljarða og eiginfjárhlutfalið er 30,5%.
174 milljarða eignasafn
Virði eignasafns Regins er metið á 174 milljarða. Safnið samanstendur af 109 fasteignum sem eru alls um 381 þúsund fermetrar. Útleiguhlutfall á safni Regins er um 98% miðað við þær tekjur sem 100% útleiga gæfi. Heildar matsbreyting á fyrstu sex mánuðum ársins nam 6,3 milljörðum.
Í tilkynningu félagsins segir að á árinu hafi orðið nokkrar tafir á umfangsmiklum verkefnum við endurgerð og standsetningu leigurýma í núverandi eignasafni. Tafirnar megi rekja til þenslu í byggingargeiranum og skorts á aðföngum.
„Hafnartorg Gallery opnaði um miðjan ágúst síðastliðinn og hafa þá þrjár nýjar verslanir og sjö veitingastaðir bæst við Hafnartorg,“ segir í tilkynningu. Við opnunina er nýting Hafnartorgs orðin 90% en fimm útleigubil verða leigð út síðar á árinu.