Flugfélagið Atlanta á sér langa sögu en það var stofnað árið 1986. Á ýmsu hefur gengið í rekstrinum, frá því félagið var endurreist árið 2008 hefur leiðin hins vegar legið upp á við. Því til sönnunar hefur Atlanta skilað jákvæðri afkomu frá árinu 2009 eða í heil sextán ár, sem verður teljast ótrúlegur árangur í flugrekstri.

Í fyrra námu tekjur Atlanta samstæðunnar 45 milljörðum króna og hagnaðurinn nam 9,9 milljörðum. Afkoma félagsins að teknu tilliti til vaxtagreiðslna og vaxtatekna, skattgreiðslna og afskrifta (EBITDA) nam 21 milljarði króna í fyrra. Á árinu 2024 er gert ráð fyrir að veltan aukist um 12-15% og hagnaðurinn um 2-3%.

Um 40% veltuaukning

Baldvin Már Hermannsson tók við forstjórastöðunni árið 2019 og undir hans stjórn hefur félagið haldið áfram að vaxa og dafna og það þrátt fyrir gríðarlega erfiðleika þegar heimsfaraldurinn gekk yfir en hann hafði mikil áhrif á flugsamgöngur eins og allir vita. Á síðustu fimm árum hefur félagið vaxið og dafnað og hefur velta félagsins aukist um nærri 40% og hagnaðurinn ríflega tvöfaldast.

Baldvin og Flugfélagið Atlanta hljóta Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar árið 2024.

Fyrsti vinnudagur Baldvins hjá Atlanta var viðburðaríkur.
Fyrsti vinnudagur Baldvins hjá Atlanta var viðburðaríkur.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Fyrsti vinnudagurinn var 11. september 2001

Baldvin Már er fæddur á Akureyri árið 1976 og ólst hann upp þar, sem og í Reykjavík.

„Mín aðkoma að flugi hefst á Akureyrarflugvelli, þar sem ég byrjaði 19 ára gamall í sumarstarfi að hlaða farangur og innrita farþega,” segir Baldvin. „Eftir það kláraði ég rekstrarfræði í Háskólanum á Akureyri og Viðskiptaháskólanum í Vínarborg, sem reyndist góður grunnur fyrir það sem ég er að gera í dag. Ég var í stórum alþjóðlegum hópi nemenda, fólki héðan og þaðan að úr heiminum. Ég lærði því hvað dýnamíkin er mismunandi í ólíkum menningarhópum og sá lærdómur hefur reynst mér afar vel í okkar alþjóðlegu starfsemi."

„Eftir útskriftina árið 2001 var ég kominn með vinnu í banka þegar ég fékk símtal og var spurður hvort ég væri til í að koma og vinna fyrir Air Atlanta í Sádí-Arabíu í þrjá mánuði. Þetta var flugfélag sem ég þekkti svo sem lítið til en ég sló samt til enda fannst mér þetta spennandi tækifæri. Gaman að prófa eitthvað nýtt áður en ég færi í alvöru starf.

Á þessum tíma voru höfuðstöðvar Air Atlanta í Mosfellsbæ og ég mætti þangað á mínum fyrsta starfsdegi, sem var 11. september 2001. Ég var aðeins búinn að vinna þarna í nokkra klukkutíma þegar flugvélarnar tvær skullu á Tvíburaturnunum. Þá hugsaði ég með mér að ég ætti nú kannski ekki langan frama fyrir höndum hjá Atlanta en sem betur fer varð raunin önnur.”

Frábær eldskírn

Baldvin hóf fyrst störf á flugrekstarsviði Atlanta og starfaði þar um nokkurra ára skeið.

„Það var frábær eldskírn og innsýn í það hvernig flugfélög virka. Í byrjun árs 2002 starfaði ég í kringum pílagrímaflugið í Sádi-Arabíu. Svo leiðir eitt af öðru. Ég starfaði meðal annars um tíma í Nígeríu, Frakklandi, Hollandi og Malasíu, þar sem ég sinnti umfangsmiklum flugrekstri Atlanta í ein þrjú ár eða svo. Ég kom svo heim árið 2005, þegar við konan eignuðumst okkar fyrsta barn, og hér hef ég verið síðan í hinum ýmsu hlutverkum. Fyrst á flugrekstrarsviðinu og svo í sölu- og markaðsdeildinni, sem ég stýrði frá 2008 þar til ég tek við sem forstjóri árið 2019. Ég hef því í ansi mörg ár unnið ásamt okkar lykilfólki og stjórn félagsins að framþróun flotans, leiðakerfisins og uppbyggingu Atlanta.”

Forstjóraskipti 2019

Árið 2019 verða ákveðin kynslóðaskipti hjá Atlanta þegar Baldvin ásamt fjórum kollegum sínum kaupir 20% hlut í félaginu. Samhliða þessu verða forstjóraskipti. Hannes Hilmarsson, sem einmitt gaf Baldvini stórt tækifæri þegar hann réði hann sem sölu- og markaðsstjóra árið 2008, stígur úr forstjórastólnum eftir afar farsælan feril og Baldvin tekur við. Hannes er sem áður stór hluthafi í Atlanta og er starfandi stjórnarformaður félagsins í dag.

Skömmu eftir að Baldvin tók við sem forstjóri tók við ansi ævintýralegur tími.
Skömmu eftir að Baldvin tók við sem forstjóri tók við ansi ævintýralegur tími.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

„Þegar ég tók við forstjórastarfinu af Hannesi var stefnan sett á áframhaldandi uppbyggingu félagsins. Við ákváðum að endurnýja flotann hratt og lögðum inn pantanir fyrir Boeing 777 og Airbus 330 vélum en þegar örfáar vikur voru í fyrstu afhendingu skall heimsfaraldurinn á af þunga. Við tók ansi ævintýralegur tími því við þurftum að stokka upp spilin og hugsa allt upp á nýtt.”

Ítarlegt viðtal við Baldvin Má er í tímaritinu Áramót, sem kom út í dag. Áskrifendur geta lesið það í heild hér.