Ríkis­stjórn Ítalíu kom mörkuðum á ó­vart í gær­kvöldi með til­kynningu um 40% hval­reka­skatt á banka landsins. Ríkis­stjórnin sagði að skatt­heimtan ætti að skila tveimur milljörðum evra í ríkis­sjóð, sem nýta ætti í að styðja við fjöl­skyldur sem hafa farið illa úr vaxta­hækkunum.

Hluta­bréf í bönkum og öllum helstu lána­stofnunum á Ítalíu tóku dýfu í morgun þegar markaðir opnuðu.

Hluta­bréf í Intesa Sanpa­lo bankanum hafa fallið um 7,8% á meðan gengi UniCredit bankans hefur fallið um 6,25%.

Ríkis­bankinn Monte dei Paschi di Si­ena féll um 9% á meðan gengi Banco BPM, þriðja stærsta banka landsins, féll um 6,8%. Á­ætlað virði bankanna er talið hafa lækkað um hátt í 10 milljarða evra frá því að markaðir opnuðu.

Giorgia Meloni for­sætis­ráð­herra Ítalíu hefur verið mjög gagn­rýnin á banka landsins fyrir að hækka ekki vexti á inn­láns­reikningum með litlum inni­stæðum á sama tíma og láns­kostnaður hefur hækkað til muna.

Skatt­heimtan mun einungis verða lögð á hagnað sem er til­kominn vegna vaxta­munar en sam­kvæmt Financial Times er um­ræddur hagnaður um 20% af heildar­hagnaði bankanna.

Bankar á Ítalíu högnuðust um 10,5 milljarða evra fyrri hluta árs 2023 sem er 64% meira en árið áður. Búist er við því að bankarnir muni taka slaginn við ríkisstjórnina en þingið þarf að samþykkja breytinguna.

Stýri­vextir á Ítalíu eru 4,25% og árs­verð­bólga um 5%.