Sigurður Páll Hauksson, nýr forstjóri Deloitte segir bankahrunið 2008 hafa verið gríðarlegt áfall fyrir endurskoðunarfyrirtæki, þótt staða Deloitte hafi verið sérstök að því leyti að fyrirtækið var ekki endurskoðandi neinna af stóru bönkunum þremur sem féllu.

„Við fundum strax fyrir því að orðstír stéttarinnar beið hnekki. FLE (Félag löggiltra endurskoðenda) hefur verið í fararbroddi við að vinna orðstírinn til baka og er því verki ekki enn lokið. Nauðsynlegt var að fara í gegnum ákveðna þætti, sem gagnrýnisverðastir þóttu. Stéttin lærði heilmikið á hruninu, eins og líklega flestar stéttir sem tengdust fjármálakerfinu,“ segir hann.

Hann segir að endurskoðendur beri vissulega ábyrgð á sinni áritun í ársreikning. „Samkvæmt aðferðinni og hugmyndafræðinni sem endurskoðendur starfa eftir þá erum við að veita ákveðna tryggingu fyrir því að ársreikningar fyrirtækja séu í samræmi við raunveruleikann á reikningsskiladegi. Hugsanlega voru væntingar almennings til endurskoðenda of miklar, þ.e. að þeir væru óskeikulir. Starf endurskoðandans felst ekki í því að yfirfara hverja einustu bókhaldsfærslu hjá endurskoðuðu félagi. Yfirferð endurskoðandans miðast við ákveðin skekkjumörk sem ákvörðuð eru út frá fjárhæðum í rekstri og efnahag hvers félags fyrir sig,“ segir Sigurður Páll.

Ítarlegri umfjöllun birtist í Viðskiptablaðinu 12. júní 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.