Five Degrees er íslenskt-hollenskt hugbúnaðarfyrirtæki sem þróar bakvinnslukerfi fyrir banka og önnur fjármálafyrirtæki. Velta Five Degrees á Íslandi nam 1,3 milljörðum króna í fyrra, sem er nærri tvöföldun frá árinu 2019. Björn Hólmþórsson, sem stofnaði fyrirtækið með Hollendingnum Martijn Hohmann árið 2009, segir að Five Degrees leggi mikla áherslu á sjálfvirknivæðingu bankaferla og reikningakerfa.

„Að búa til hugbúnað fyrir banka er dýrt og krefst þess að gæðastaðlar séu virtir. Allt þarf að vera í lagi, vel prófað og viðhaldið. Það skiptir máli að vera á alþjóðamarkaði því að þróa kerfi einungis fyrir íslenskan markað svarar ekki kostnaði. Það er hins vegar mjög gott að þróa hugbúnað fyrir íslenskar fjármálastofnanir því fólk hér er móttækilegra fyrir framþróun en annars staðar. Ísland er mjög góður „test markaður“ fyrir okkar hugbúnað. Þetta er gott dæmi um hvernig hlutirnir geta virkað vel, verandi íslenskt-erlent félag.“

Ársverk Five Degrees á Íslandi jukust úr 52 í 59 á milli ára. Björn segir að starfshópurinn á Íslandi nálgist nú hundrað manns en þar af starfa tíu á Akureyri. Bróðurparturinn af þróunarvinnu Five Degrees fer fram hér á landi. „Þegar kemur að hugbúnaðarþróun og forriturum þá eru Íslendingarnir algjörlega í sérflokki.“

Samtals starfa nærri 170 manns hjá Five Degrees samstæðunni sem er einnig með skrifstofur í Amsterdam í Hollandi, Lisbon í Portúgal og Novi Sad í Serbíu.

Mæta öllum þörfum bankana

Árið 2018 festi Five Degrees kaup á íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu Libra, sem hafði þróað lausnir á sviði lána- og verbréfaumsýslu.

„Við vorum með reikningakerfi og banka-ferlavél og með kaupunum á Libru bættist við lána- og verðbréfaumsýslukerfi. Núna erum við í raun með fullt vöruframboð fyrir banka. Þ.e. ef einhver banki þarf að taka upp nýtt kerfi, þá getum við komið til móts við allar hans þarfir.“

„Ég sé alveg fyrir mér að erlendir bankar muni færa sig meira inn á íslenska markaðinn í framtíðinni. Það er eitthvað sem við þurfum að hugsa um. Við erum á þessum alþjóðlega vettvangi.“

Í kjölfar kaupanna var ákveðið að samþætta og skýjavæða lausnirnar og koma þeim saman fyrir í bakvinnslukerfinu Matrix. Five Degrees stefnir á að færa alla viðskiptavini sína í skýjalausnir (SaaS) á næstu fimm árum og vonast til að allir „on-premises“ kúnnarnir verði komnir í skýið þegar þeirri vinnu lýkur.

„Þegar við vorum að kynna þessa hugmynd fyrir bönkum fyrir þremur árum þá svöruðu margir að þetta myndi aldrei gerast. Núna eru bankarnir að keppast um að vera næstir í röðinni að fara í skýið. Við erum komin með pantanabók fyrir næsta árið.“

Word og Excel bankareksturs

Á meðan þessi vinna stóð yfir varð til annað verkefni sem leiddi af sér nýja vöru sem heitir °neo. „Þar erum við að þróa kerfin okkar í allt öðrum búningi þannig að viðskiptavinir geti keypt lausnirnar með innbyggðri skýjahögun (e. cloud-native computing),“ segir Björn. Hann bætir þó við að °neo-kerfið eigi langt í langt og að nokkur ár séu í að hún muni standa íslenska markaðnum til boða.

„Matrix og °neo eru byggð á sömu grunnkerfunum en eru útfærð í mismunandi tækni. °neo má líkja við Word og Excel fyrir bankastarfsemi. Það sem við gerum í °neo mun virka óbreytt fyrir allan heiminn. Sérhæfðari lausnir, t.d. þær sem tengjast staðbundnum þjónustum eins og kröfupottinum eða greiðslumiðlunarkerfinu á Íslandi, verða áfram keyrðar í Matrix-kerfinu.“

Horfa til Ameríku

Fleiri en 40 bankar eru að keyra °matrix kerfi Five Degrees í dag. Meðal þeirra er kanadíska bankasamstæðan TD Bank Group, belgíski bankinn Argenta og hollenski bankinn ABN Amro.

„Okkar markhópur hefur hingað til verið bankar að meðalstærð. Það er mjög stór hópur af bönkum í þessum stærðarflokki sem eru með úrelt kerfi sem gera þeim erfitt fyrir að minnka kostnað hjá sér. Markaðurinn sem við horfum til núna er Norður-Ameríka, sem er tvöfalt stærri en evrópski bankageirinn. Þar eru flestir að nota gömul COBOL-kerfi sem ná ekki að keyra nema að hluta í gegnum skýið.“

Spurður um breytingar í bankaheiminum þá segir Björn að hann sé að þróast í þá átt að minna máli skiptir í hvaða landi kerfin eru keyrð. Kerfin tengjast hvert öðru mun meira nú en áður og skýjavæðingin spili þar stórt hlutverk.

„Ég sé alveg fyrir mér að erlendir bankar muni færa sig meira inn á íslenska markaðinn í framtíðinni. Það er eitthvað sem við þurfum að hugsa um. Við erum á þessum alþjóðlega vettvangi.“

Sérblaðið Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri kom út í morgun. Blaðið er opið öllum og hægt er að nálgast það hér.