Stjórn Marels hafnaði einróma óskuldbindandi viljayfirlýsingu bandaríska matvælafyrirtækisins John Bean Technologies Corporation um mögulegt kauptilboð á öllu hlutafé Marels. Að mati stjórnarinnar tekur tilboðið hvorki tillit til innra virði rekstrar Marels né þeirrar áhættu sem fælist í framkvæmd viðskiptanna.
Stjórn Marels hafnaði einróma óskuldbindandi viljayfirlýsingu bandaríska matvælafyrirtækisins John Bean Technologies Corporation um mögulegt kauptilboð á öllu hlutafé Marels. Að mati stjórnarinnar tekur tilboðið hvorki tillit til innra virði rekstrar Marels né þeirrar áhættu sem fælist í framkvæmd viðskiptanna.
Marel greindi á föstudaginn frá óskuldbindandi viljayfirlýsingu JBT en bandaríska fyrirtækið bauð 3,15 evrur á hlut og hugðist greiða 75% af kaupverðinu í formi eigin bréfa og 25% í reiðufé. Hluthafar Marels myndu eignast 36% hlut í JBT hefðu viðskiptin gengið eftir.
Í kauphallartilkynningu JBT segir að viljayfirlýsingunni fylgi óafturkallanleg yfirlýsing Eyris Invest hf., eiganda 24,7% hlutafjár í Marel, um samþykki félagsins verði tilboð lagt fram.
Stjórn Eyris samþykkti að leggja fram slíka óafturkallanlega yfirlýsingu en athygli vekur að stjórnarmaður Eyris, Ólafur Steinn Guðmundsson, situr einnig í stjórn Marels sem hafnar viljayfirlýsingunni einróma nokkrum dögum síðar.
Tjáir sig ekki
Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins þá voru hendur Eyris ekki bundnar þrátt fyrir þetta orðalag. Félagið hefði hvorki þurft að taka tilboði upp á nákvæmlega 3,15 evrur né hafna tilboði frá öðrum.
Viðskiptablaðið óskaði eftir staðfestingu á þessu frá Friðriki Jóhannssyni stjórnarformanni Eyris. Þau svör bárust að Eyrir Invest hf. muni ekki tjá sig að svo stöddu um málið. Sjái félagið ástæðu til þess að tjá sig verði það gert í formi yfirlýsingar sem birt verði á heimasíðu þess.
Ljóst er að tilboðsdrög JBT hefðu þýtt að Eyrir hefði svo gott sem getað greitt upp sínar skuldir og auðvitað einnig eignast hlut í JBT. Að þessu leyti var tilboðið fýsilegur kostur fyrir suma hluthafa Eyris, sér í lagi þar sem Eyrir er skuldsett félag í dag.
Hefðu stjórnendur Eyris til að mynda selt 5% hlut í Marel fyrir um tveimur árum, þegar gengið var í hæstu hæðum, þá ætti félagið 19-20% hlut í Marel skuldlaust í dag en það er alltaf hægt að vera vitur eftir á.
Knýja fram hærra verð
Heimildir Viðskiptablaðsins herma að þrátt fyrir yfirlýsingu Marel þá sé sala á fyrirtækinu ekki útilokuð. Stjórnendur sætta sig augljóslega ekki við verðmiðann, sem settur hefur verið á fyrirtækið en mögulega eru þeir að knýja á um hærra tilboð, hvort sem það verður frá JBT eða öðrum.
Samkvæmt þessu þá er yfirlýsing Marel mögulega biðleikur í skákinni um framtíð Marel. Þeir sérfræðingar á markaði sem blaðið ræddi við í gær túlkuðu yfirlýsingu stjórnar Marel á þann veg og því eru enn ríkar væntingar á markaði um draga kunni til tíðinda í fyrirsjáanlegri framtíð.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.