Scion Asset Management, vogunarsjóður fjárfestisins Michael Burry, seldi allan hlut sinn í ellefu bandarískum félögum á öðrum ársfjórðung og fer nú einungis með hlutabréf í einu bandarísku félagi; Geo Group, sem heldur úti einkareknum fangelsum og geðheilbrigðisstofnunum. Bloomberg greinir frá.

Scion átti um 165 milljóna dala hlut, eða sem nemur 23 milljörðum króna á gengi dagsins, í skráðum bandarískum félögum í lok fyrsta ársfjórðungs. Vogunarsjóðurinn hefur síðan losað sig við öll bréfin, að 3,3 milljóna dala hlut í Geo Group undanskildum. Meðal félaga sem Scion seldi í voru Alphabet, móðurfélag Google, og Meta, móðurfélag Facebook.

Hlutabréf Geo Group hækkuðu um 10,6% í gær eftir birtingu tilkynningar um eignarhald Scion. Gengi félagsins hefur hækkað um 3,5% til viðbótar í viðskiptum fyrir opnun markaða í dag.

Michael Burry varð frægur fyrir að veðja gegn bandaríska húsnæðismarkaðnum í aðdraganda fjármálahrunsins árið 2008. Hann var leikinn af Christian Bale í óskarsverðlaunakvikmyndinni The Big Short sem var byggð á samnefndri bók Michael Lewis frá árinu 2008.

Burry hefur farið mikinn á samfélagsmiðlum síðustu mánuði með svartsýnum spám um að önnur fjármálakreppa sé í aðsigi. Hann tísti í maí að næsta fjármálahrun gæti orðið sambærilegt því sem skall á fyrir fjórtán árum síðan.

Tilkynningin, sem allir sjóðir með hlutabréf að andvirði meira en 100 milljónir dala í stýringu ber að birta, nær einungis til hlutabréfa á bandaríska hlutabréfamarkaðnum. Sjóðnum ber ekki skylda að tilkynna um skortstöðu eða hlutabréfaeign í öðrum löndum.