Ineos Automotive, bílaframleiðandinn í eigu milljarðamæringsins og meðeiganda Manchester United, Jim Ratcliffe, hefur innkallað fleiri en sjö þúsund jeppa í Bandaríkjunum.
Innköllunin hefur verið gerð vegna þess að læsingar á Grenadier-jeppunum tengjast ekki almennilega og gæti leitt til þess að hurðir á jeppunum opnist á meðan bílnum er ekið.
Ineos segir að bílaframleiðandinn muni skipta um allar hurðasamstæður á viðkomandi ökutækjum að kostnaðarlausu. Félagið hefur þó áður lent í erfiðleikum en á síðasta ári neyddist það til að stöðva framleiðslu tímabundið eftir að einn af varabirgjum þess varð gjaldþrota.
Eigandi fyrirtækisins ætti að vera mjög kunnugur Íslendingum en auðkýfingurinn á og leigir laxveiðiár á Norðausturlandi í gegnum fyrirtækið Six Rivers Iceland. Árnar í eigu Ratcliffe eru meðal annars Hafralónsá, Hofsá, Selá og Miðfjarðará í Bakkafirði þar sem hann byggði jafnframt stórglæsilegt veiðihús. Hann hefur einnig gert tilboð í fleiri laxveiðiár.
Jim Ratcliffe stofnaði Ineos árið 2016 vegna vonbrigða yfir ákvörðun Jaguar Land Rover um að hætta framleiðslu á Defender-jeppanum. Árið 2020 tilkynnti Ratcliffe, sem hafði sjálfur barist fyrir Brexit, að bíllinn yrði settur saman í Frakklandi en vonir voru bundnar við að bíllinn yrði settur saman í verksmiðju í Wales.
Grenadier-jeppinn, sem fær innblástur sinn frá hinum þekkta Land Rover Defender, kom fyrst á markað árið 2022 og var fyrsta farartækið sem Ineos Automotive framleiddi.
Að sögn Ineos eru nú 20 þúsund Grenadier-jeppar keyrandi um í 50 mismunandi löndum. Samkvæmt bresku fyrirtækjaskránni Companies House nam tap Ineos Automotive meira en 1,5 milljarði dala fyrir skatta árið 2023.