Björn Hembre framkvæmdastjóri Arnarlax er vongóður um að boðuð skráning félagsins á First North-markaðinn í íslensku Kauphöllinni í haust og aðkoma almennra fjárfesta í kjölfarið muni bæta ímynd félagsins í augum landsmanna og auka pólitískan vilja til að heimila frekari uppbyggingu starfseminnar.
Heildarendurskoðun laga- og reglugerðarumgjarðar greinarinnar stendur nú yfir, og niðurstaðan gæti skipt sköpum fyrir framtíð Arnarlax og fiskeldis á Íslandi.
Þrátt fyrir einlægan vilja til að fá fleiri íslenska fjárfesta að borðinu fer Björn ekki í neinar grafgötur með það mat þeirra sem að félaginu standa að skráningin geti stuðlað að sátt innan samfélagsins um starfsemi félagsins, ekki aðeins í núverandi mynd heldur – að því er vonir standa til – mun meiri að umfangi þegar fram líða stundir. „Þetta er skref í rétta átt, engin spurning.“
Ekki megi þó gleyma því að það tækifæri sem öllum Íslendingum muni brátt standa til boða, til viðbótar við öll þau jákvæðu áhrif sem efnahagsumsvif félagsins hafa þegar haft, megi þakka núverandi eigendum, sem komu fyrirtækinu á laggirnar og byggðu það upp. „Það er hins vegar gömul saga og ný að það sjá það ekki allir þannig.“
Nánar er rætt við Björn í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í morgun.