Fjármálaráðuneytið, sem fer með málefni ÍL-sjóðs, hefur boðað tvö skiptútboð íbúðabréfa í flokkunum HFF34 og HFF44 á föstudaginn.
Ráðuneytið greindi frá því í lok nóvember að eigendum bréfa í flokkunum tveimur með lokagjalddaga eftir 11 og 21 ár, yrði boðið að skipta á þeim bréfum fyrir ótilgreind markaðsverðbréf í eigu sjóðsins.
Ráðuneytið lagði fyrir um tveimur mánuðum fram frumvarp til laga um slit „ógjaldfærra opinberra aðila“, sem ætlað er að skapa lagagrundvöll fyrir slitameðferð ÍL-sjóðs. Skiptiútboðið kom því mörgum í opna skjöldu.
ÍL-sjóður stefnir að óbreyttu í að tapa verulegum fjárhæðum og verða að lokum ógjaldfær, þar sem hann á ekki fyrir skuldbindingum sínum á því vaxtastigi sem ríkir á markaði í dag.
Verðbréf í eigu sjóðsins voru um mitt þetta ár bókfærð á rétt tæpa 150 milljarða, en þar af var ríflega helmingur, eða 76 milljarðar, í formi sértryggðra skuldabréfa bankanna – sem tryggð eru með íbúðalánasöfnum þeirra – tæpir 50 milljarðar ríkisskuldabréf.
Restin skiptist í skuldabréf sveitarfélaga og fyrirtækja.
Samkvæmt Kauphallartilkynningu í morgun hefst fyrra útboðið klukkan 10:00 á föstudaginn en ÍL-sjóður býðst til að kaupa HFF44 á hreina verðinu 100,00.
Til skýringar jafngildir verðið 3,78% ávöxtunarkröfu, gegn afhendingu á verðtryggða ríkisbréfaflokkinum RIKS 33 á hreina verðinu 102,150, en til skýringar jafngildir verðið 2,73% ávöxtunarkröfu.
ÍL-sjóður býðst til að kaupa HFF44 bréf gegn afhendingu á allt að 12.589.739.923 kr. að nafnvirði í RIKS 33.
Í seinna útboðinu sem verður haldið eftir hádegi á föstudaginn býðst ÍL-sjóður til að kaupa HFF34 á hreina verðinu 100,00.
„Til skýringar jafngildir verðið 3,78% ávöxtunarkröfu, gegn afhendingu á ríkisbréfaflokkinum RIKS 30 á hreina verðinu 102,400, en til skýringar jafngildir verðið 2,84% ávöxtunarkröfu.“
Samkvæmt tilkynningunni býðst ÍL-sjóður til að kaupa HFF34 bréf gegn afhendingu á allt að 12.150.000.000 kr. að nafnvirði í RIKS 30.
Kauptilboð í viðkomandi ríkisbréfaflokka skulu send inn sem nafnverðsfjárhæð.
Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins óskuðu einhverjir eigendur íbúðabréfa eftir því við fjármálaráðuneytið að fá að skipta þeim fyrir ríkisskuldabréf.
Afar ólíklegt þykir að lífeyrissjóðirnir muni taka þátt í útboðinu, sem virðist því helst sniðið að öðrum eigendum bréfanna. Einn viðmælenda blaðsins sagði fyrirhugað útboð „algerlega kollvarpa fyrri hugmyndum Bjarna [Benediktssyni, fyrrverandi fjármálaráðherra]“.