Fjár­mála­ráðu­neytið, sem fer með mál­efni ÍL-sjóðs, hefur boðað tvö skiptút­boð í­búða­bréfa í flokkunum HFF34 og HFF44 á föstu­daginn.

Ráðu­neytið greindi frá því í lok nóvember að eig­endum bréfa í flokkunum tveimur með loka­gjald­daga eftir 11 og 21 ár, yrði boðið að skipta á þeim bréfum fyrir ó­til­greind markaðs­verð­bréf í eigu sjóðsins.

Ráðu­neytið lagði fyrir um tveimur mánuðum fram frum­varp til laga um slit „ó­gjald­færra opin­berra aðila“, sem ætlað er að skapa laga­grund­völl fyrir slita­með­ferð ÍL-sjóðs. Skiptiútboðið kom því mörgum í opna skjöldu.

ÍL-sjóður stefnir að ó­breyttu í að tapa veru­legum fjár­hæðum og verða að lokum ó­gjald­fær, þar sem hann á ekki fyrir skuld­bindingum sínum á því vaxta­stigi sem ríkir á markaði í dag.

Verð­bréf í eigu sjóðsins voru um mitt þetta ár bók­færð á rétt tæpa 150 milljarða, en þar af var ríf­lega helmingur, eða 76 milljarðar, í formi sér­tryggðra skulda­bréfa bankanna – sem tryggð eru með í­búða­lána­söfnum þeirra – tæpir 50 milljarðar ríkis­skulda­bréf.

Restin skiptist í skulda­bréf sveitar­fé­laga og fyrir­tækja.

Sam­kvæmt Kaup­hallar­til­kynningu í morgun hefst fyrra út­boðið klukkan 10:00 á föstu­daginn en ÍL-sjóður býðst til að kaupa HFF44 á hreina verðinu 100,00.

Til skýringar jafn­gildir verðið 3,78% á­vöxtunar­kröfu, gegn af­hendingu á verð­tryggða ríkis­bréfa­flokkinum RIKS 33 á hreina verðinu 102,150, en til skýringar jafn­gildir verðið 2,73% á­vöxtunar­kröfu.

ÍL-sjóður býðst til að kaupa HFF44 bréf gegn af­hendingu á allt að 12.589.739.923 kr. að nafn­virði í RIKS 33.

Í seinna út­boðinu sem verður haldið eftir há­degi á föstu­daginn býðst ÍL-sjóður til að kaupa HFF34 á hreina verðinu 100,00.

„Til skýringar jafn­gildir verðið 3,78% á­vöxtunar­kröfu, gegn af­hendingu á ríkis­bréfa­flokkinum RIKS 30 á hreina verðinu 102,400, en til skýringar jafn­gildir verðið 2,84% á­vöxtunar­kröfu.“

Sam­kvæmt til­kynningunni býðst ÍL-sjóður til að kaupa HFF34 bréf gegn af­hendingu á allt að 12.150.000.000 kr. að nafn­virði í RIKS 30.

Kaup­til­boð í við­komandi ríkis­bréfa­flokka skulu send inn sem nafn­verðs­fjár­hæð.

Sam­kvæmt heimildum Við­skipta­blaðsins óskuðu ein­hverjir eig­endur í­búða­bréfa eftir því við fjár­mála­ráðu­neytið að fá að skipta þeim fyrir ríkis­skulda­bréf.

Afar ó­lík­legt þykir að líf­eyris­sjóðirnir muni taka þátt í út­boðinu, sem virðist því helst sniðið að öðrum eig­endum bréfanna. Einn við­mælenda blaðsins sagði fyrir­hugað út­boð „al­ger­lega koll­varpa fyrri hug­myndum Bjarna [Bene­dikts­syni, fyrr­verandi fjár­mála­ráð­herra]“.