Controlant hélt upplýsingafund fyrir hluthafa á föstudaginn síðasta þar sem stjórnendur kynntu helstu niðurstöður síðasta árs 2023 og horfur fyrir 2024. Ásthildur Otharsdóttir, varaformaður stjórnar Controlant bauð Søren Skou, sem tók við sem stjórnarformaður félagsins í upphafi árs, velkominn.
Søren ávarpaði gesti og varpaði ljósi á tækifærin í stafrænni umbreytingu aðfangakeðju lyfja.
Søren er hefur mikla reynslu á sviði flutninga. Á árunum 2016 til 2022 gegndi hann hlutverki forstjóra A. P. Moller-Maersk, stærsta flutningafélagi heims, en ferill hans hjá Maersk spannar fjóra áratugi. Søren er einnig varastjórnarformaður Nokia OY og formaður The Maersk McKinney Moller Center for Zero Carbon Shipping.
Søren ávarpaði hluthafa á fundinum og veitti innsýn í áskoranir og tækifæri í alþjóðlega flutningageiranum. Hann varpaði ljósi á vegferð sína sem leiðtogi innan Maersk og ástæður þess að hann gekk til liðs við Controlant.
„Ég hlakka til að taka við nýju og áhugaverðu hlutverki hjá Controlant og leggja lóð á vogarskálarnar hjá þessu framsækna fyrirtæki sem er að takast á við mikilvæga áskorun í heiminum,“ er haft eftir Søren Skou, stjórnarformanni Controlant, í tilkynningu.
„Markmið Controlant, að auðvelda dreifingu bóluefna og lyfja á heimsvísu, bjargar mannslífum. Sú tækni sem Controlant hefur þróað og ávinningurinn sem lausnir þess skapa kemur i veg fyrir sóun í þessari mikilvægu virðiskeðju og gerir lyfjafyrirtækjum kleift að koma lyfjum til sjúklinga hraðar og öruggar en áður. Controlant hefur einnig byggt upp einstakt samband við viðskiptavini sína sem byggir á samstarfi og samvinnu.
Controlant teymið er einnig einstakt og afrekið sem starfsfólkið vann við örugga dreifingu á yfir 6 milljörðum bóluefnaskammta á tímum heimsfaraldurs er til vitnis um metnað og þrautseigju. Með skýrri sýn á að útrýma sóun í aðfangakeðju lyfja er fátt sem stendur í vegi Controlant til að ná langt og umbylta einni mikilvægustu virðiskeðju í heimi.”
Saga Card frumsýnt
Controlant kynnti nýverið Saga Card, tímamóta lausn sem félagið telur að muni umbreyta rauntíma vöktun lyfja. Saga Card mun veita lyfjafyrirtækjum og flutningsaðilum sem þjónusta lyfjageirann innsýn í flutning og birgðastöðu lyfja niður á einstaka vörur og tryggja þannig öruggan flutning, samhliða því að draga enn frekar úr sóun í aðfangakeðju lyfja.
Carsten Lützhøft, framkvæmdastjóri vörusviðs Controlant, ræddi nýverið um hönnun, eiginleika og tilgang Saga Card á Mobile World Congress tækniráðstefnunni. Saga Card er í prófunaráfanga í samstarfi við lyfjafyrirtæki til að tryggja áreiðanleika lausnarinnar.