Björgólfur Thor Björgólfsson segir á vefsíðu sinni að umfjöllun Kastljóssins í gær um skýrslu Kroll hafi beinst nær eingöngu að dylgjum skýrslunnar, en svör hans við spurningum hafi verið í skugganum. Á vefsíðunni segir Björgólfur Thor að skýrslan hafi verið unnin að beiðni Barr Pharmaceuticals árið 2006, en þá börðust Barr og Actavis um lyfjafyrirtækið Pliva. Barr hafi leitað allra leiða til að fjá fjárfestingarsjóði til liðs við sig fremur en Actavis og liður í því hafi verið samantekt á orðrómu og dylgjum, sem slúðrað hafi verið um í tengslum við bjórverksmiðju í Pétursborg.
Segist Björgólfur aldrei hafa tengst þeim mönnum, sem Kroll ætla að hafi verið viðskiptafélagar þeirra feðganna, Björgólfs Thors og Björgólfs Guðmundssonar. Segist Björgólfur Thor aldrei hafa verið í viðskiptum við Jeffrey Galmond eða Leonid Reiman, fyrrverandi samskiptaráðherra Rússlands, og að þeir hafi ekki aðstoðað hann við að afla sér viðskiptasambanda í A-Evrópu.
Í umfjöllun Kastljóssins sagði að Kroll hafi talið líklegt að Björgólfur hafi byggt upp veldi sitt í samkrulli við spillta rússneska stjórnmálamenn enda hafi verið næsta ómögulegt að ná árangri í viðskiptum í Rússlandi á þeim tíma sem Björgólfur Thor og fleiri byggðu upp eina stærstu bjórverksmiðju landsins, Bravo, án slíkra tengsla.
Í skýrslunni er talið að áðurnefndur Jeffrey Galmond hafi verið milligöngumaður þess að rússneksir áhrifamenn hafi komið að viðskiptum Björgólfs, en eins og áður segir neitar Björgólfur Thor því.