„Ég leit á þetta sem tækifæri heilbrigðiskerfisins til að sjá að hægt er að hafa vel launað starf innan heilbrigðiskerfisins og skapa möguleika á slíku fyrir aðra starfsmenn á næstu árum. En stéttarfélögin sáu ekki tækifærin í því,“ segir Björn Zoega, forstjóri Landspítalans um það samkomulag að hann falli frá 450 þúsund króna launahækkun sem Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hafði upp á sitt einsdæmi ákveðið að veita honum. Launahækkunin kom í kjölfar þess að Birni var boðið starf forstjóra á stórum spítala í Svíþjóð. Mánaðarlaun Björns fóru við þetta úr 1,9 milljónum króna í um 2,3 milljónir. Launahækkuninni var mótmælt harðlega.
Björn segir í samtali við vb.is sér hafa fundist óþarfa að láta jafn lítið atriði og launahækkun sína trufla vinnu fólks á spítalanum. Vinnan ytra standi honum hins vegar ekki lengur til boða enda búið að ráða í hana.
Spurður hvort þróun mála verði til þess að hann muni taka sambærilegu starfi sem honum bjóðist erlendis segir hann ómögulegt um það að segja.
„Mér hafa áður verið boðin störf við hin ýmsu verkefni og hef afþakkað þau. En þetta starf var það áhugavert að ég skoðaði það í langan tíma og fór í gegnum þungan prósess í kringum það. Það var alvara á bak við þetta hjá mér.“
Björn segir launaþáttinn lítinn þátt af samkomulaginu sem leiddi til þess að hann ákvað að stýra Landspítalanum áfram. Á meðal annarra þátta fólst í því að styrkja tækjakaup spítalans og styðja fast við verkefni tengd verkefni um nýjan spítala.
„Ég horfði til þess að færa spítalann frá láglaunasvæði hins opinbera og gefa skýr skilaboð um að það væri hægt. Það tekur auðvitað tíma og kjarasamningar ekki lausir.“
Björn fær engar bætur, námsleyfi né annað af þeim toga í stað þess að falla frá launahækkuninni.