Þekktir Twitter notendur (e. verified Twitter users), sem eru í flestum tilfellum þekkt fólk sem er með blátt hak á eftir nafni sínu á samfélagsmiðlinum, mega reikna með því að þurfa að greiða fyrir að vera áfram með „bláa hakið“ fyrir aftan notendanöfn sín. Þetta kemur fram í röð tísta sem Elon Musk, nýr eigandi samfélagsmiðilsins, birti í gær og WSJ segir frá.

Musk hyggst setja á áskriftarkerfi á Twitter til að búa til nýjan tekjustraum, þannig að félagið þurfi ekki eingöngu að reiða sig á tekjur frá auglýsingum.

Í tístunum ýjar Musk að því að Twitter notendur með hið þekkta bláa hak muni koma til með að þurfa að greiða 8 dali á mánuði fyrir að halda í það.

„Einhvern veginn þurfum við að greiða reikningana,“ sagði Musk í einu tístinu og „Twitter getur ekki einungis reitt sig á auglýsendur,“ skrifaði hann í öðru.