Rekstur stærstu bakaría landsins hefur haldist nokkuð stöðugur síðustu ár. Stærsta félagið, Bakarameistarinn, hóf fyrst rekstur árið 1977 en félagið hefur verið í eigu hjónanna Sigþórs Sigurjónssonar og Sigrúnar Stefánsdóttur frá upphafi. Velta félagsins hefur aukist um 450 milljónir króna eða 37% frá 2015 til 2022, sé miðað við verðlag ársins 2022. Þá hefur félagið skilað hagnaði öll þau ár.
Mosfellsbakarí er þriðja stærsta bakaríið en hjónin Ragnar Hafliðason og Áslaug Sveinbjörnsdóttir stofnuðu félagið árið 1982 og er reksturinn enn í höndum sömu fjölskyldu. Tekjur félagsins hafa verið mjög stöðugar og lítið breyst frá 2015 en hagnaður hefur verið af rekstrinum öll þau ár.
Félagið Al bakstur, sem rekur bakarí undir merki Almars bakara, er fjórða stærsta bakaríið. Almar Þór Þorgeirsson og Ólöf Ingibergsdóttir opnuðu fyrstu verslun Almars bakara árið 2009 og í dag fara þau með sitt hvorn 47,5% hlutinn en Örvar Arnarsson fer með 5% hlut. Öflugur viðsnúningur hefur orðið á rekstrinum en tekjur hafa aukist um 400 milljónir, eða 149%, frá árinu 2015 og félagið farið úr því að skila tapi árið 2015 í að skila hagnaði næstu ár.
Brauð og Co sker sig þó nokkuð úr í þessum samanburði. Fyrsta bakaríið opnaði árið 2016 og skilaði félagið samanlagt 64 milljóna króna hagnaði, á verðlagi ársins 2022, fyrstu tvö starfsárin og velta fór úr 259 milljónum árið 2016 í 847 milljónir árið 2019. Síðan þá hefur félagið aftur á móti verið rekið með tapi og þurftu eigendur að auka hlutafé árið 2021 til að mæta fyrirséðum greiðslu- og skuldavanda. Árið 2022 jókst velta og minna tap var af rekstrinum.
Framan af var félagið í eigu Gló veitinga ehf. en Ágúst Fannar Einþórsson fór með 18% hlut og Þórir Snær Sigurjónsson fór með 31% hlut. Eyja fjárfestingafélag, sem er í eigu Eyglóar Bjarkar Kjartansdóttur og Birgis Þórs Bieltvedt, tók við hlut Gló árið 2017. Árið 2019 seldi Ágúst Fannar sig út úr rekstrinum og Eyja fjárfestingafélag fór út árið 2021. Í lok árs 2022 fór Orkan IS með 38,4% hlut, Noruz ehf. með 10,8%, félag Þóris með 34%, og RE22 ehf. með 16,8%.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.