Hagnaður Brims á öðrum ársfjórðungi þessa árs nam 22,4 milljónum evra eða sem nemur 3,15 milljörðum króna. Þetta kemur fram í nýbirtu ársfjórðungsuppgjöri Brims. Til samanburðar nam hagnaður félagsins 12,3 milljónum evra á sama tímabili í fyrra, eða sem nemur 1,7 milljörðum króna miðað við gengi dagsins í dag.
Hagstæð verð á alþjóðamörkuðum, góð loðnuvertíð og aukinn ávinningur af fjárfestingum félagsins skýra betri afkomu félagsins á fjórðungnum, að því er kemur fram í uppgjörinu.
Vörusala jókst um 15% á milli ára og nam 148,3 milljónum evra, eða sem nemur 20,8 milljörðum króna. Eignir félagsins námu 838 milljónum evra og jukust um 42 milljónir evra frá áramótum. Eigið fé nam 422 milljónum evra og var eiginfjárhlutfallið rúmlega 50%.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri:
„Það var góður gangur hjá okkur í Brimi á fyrri hluta ársins og rekstur í samræmi við væntingar. Við sem störfum í sjávarútvegi vitum að sveiflur geta verið verulegar, bæði lýtur náttúran sínum lögmálum og þá breytast aðstæður á alþjóðamörkuðum hratt eins og við höfum séð á undanförnum árum. Loðnuvertíðin á árinu var góð sem hafði jákvæð áhrif á rekstur félagsins en á móti kemur að dregið var úr veiðiheimildum á þorski. Þá hefur stríð í Evrópu sem hófst í upphafi árs aukið kostnað í rekstri og haft áhrif á markaði fyrir afurðir okkar og aukið á óvissu.
Okkur í Brimi hefur borið gæfa til þess undanfarin ár að fjárfesta í skipum, aflaheimildum, hátæknibúnaði í vinnslu og í sölufélögum en þær fjárfestingar hafa gert okkur betur kleift að takast á við sveiflur og nýta tækifærin sem felast í breytingum. Það hefur því verið góður og öruggur vöxtur í starfsemi Brims á árinu.
Efnahagur Brims er traustur. Eigið fé hefur aukist og er eiginfjárstaða félagsins góð sem gerir okkur fært að halda áfram á okkar leið að fjárfesta til framtíðar í mikilvægustu hlekkjum í virðiskeðju félagsins.“