Örar tæknibreytingar hafa orsakað hraða þróun á vinnumarkaði undanfar- in ár. Vel menntað starfsfólk sem hefur hæfni til að takast á við þær öru samfélagsbreytingar sem hafa þegar orðið og munu halda áfram að eiga sér stað er algjört lykilatriði til að stuðla að framþróun samfélagsins. Erfitt er að sjá fyrir hvaða færni verður eftirsóknarverð og nauðsynleg atvinnulífinu í framtíðinni. Það er hins vegar ljóst að fátt er til meiri hagsbóta fyrir íslenskt atvinnulíf en öflugt samspil menntakerfisins og at- vinnulífsins.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, segir þann hluta menntakerfisins sem heyri undir sig hafa tvíþætt hlutverk. Annars vegar sé það sá hluti sem lúti að þroska einstaklingsins og virkri þátttöku í lýðræðissamfélagi og hins vegar sá hluti sem búi einstaklinga undir virka þátttöku í atvinnulífinu.

„Menntastefnan til ársins 2030 byggir meðal annars á því að byggja upp aukna þrautseigju fólks – tækifæri og hæfni til að takast á við breytingar. Þá er mikilvægt að leggja höfuðáherslu á að styrkja félagslega færni samferða aukinni tæknivæðingu,“ segir Ásmundur Einar.

Hann telur kennarann vera lykil að árangri á því sviði. „Til þess að kennarinn geti skapað þennan grunn í einstaklingum þarf að huga að því hvernig við styðum við kennara, menntum þá og endurmenntum.“

Ásmundur Einar segir unnið að því að opna og breyta grunnskólunum í þá átt að nemendur geti unnið verkefni með ólíkum hætti en einnig þurfi að huga að því hvernig megi tengja námsefnið betur við atvinnulífið.

„Ég hef verið að heimsækja grunnskóla um landið síðustu vikur. Þar er verið að vinna mörg áhugaverð og spennandi verkefni. Til að mynda í Fjarðabyggð þar sem verið er að tengja nemendur betur við atvinnulífið og verkmenntaskólann á staðnum,“ segir Ásmundur Einar.

Hann telur mikilvægt að skapa svigrúm og sveigjanleika til að aðlaga námið fyrr að styrkleikum og áhugasviði nemenda.

„Unnið hefur verið að þessu á framhaldsskólastiginu og við sjáum árangurinn endurspeglast í aukinni aðsókn í verk- og tækninám en það er einnig mikilvægt að huga að þessu á grunnskólastiginu.“

Leikskólar ekki geymslustofnun

Ásmundur Einar segir leikskólastigið vera það skólastig sem skipti atvinnulífið hvað mestu máli. „Það er mikilvægt að grunnurinn á leikskólastiginu sé sterkur. Við þurfum að hætta að líta á leikskólana sem geymslustofnun fyrir atvinnulífið svo að foreldrarnir komist út á vinnu- markaðinn.“

Þá telur hann mikilvægt að virkt samtal sé á milli atvinnulífsins og lægri skólastiganna. „Við þurfum að hafa augun opin fyrir því hvaða eiginleikum nemendur framíðarinnar þurfa að vera búnir til að takast á við áskoranir samfélagsins eftir 25- 35 ár. Það eru leik- og grunnskólanemendur dagsins í dag sem munu bera uppi samfélag framtíðarinnar.“

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Viðskiptaþing, sem fylgdi Viðskiptablaðinu.