Fjölmiðlakonan Snærós Sindradóttir Bachmann mun bjóða upp á fimm vikna námskeið um gerð hlaðvarpa í haust þar sem farið verður ítarlega í öll undirstöðuatriðin sem þarf að kunna til að gera gott hlaðvarp sem byggir á handriti.
Hún segir í samtali við Viðskiptablaðið að hugmyndin á bak við námskeiðið sé að kenna fólki að iðka góðar rannsóknaraðferðir, hvernig hægt sé að nálgast góð gögn og fara djúpt inn í góðar sögur.
Þátttakendur munu læra að skrifa handrit, taka viðtöl, beita rannsóknaraðferðum, læra tæknileg útfærsluatriði, raddbeitingu, lestur og skapa á hljóðheim sem hentar viðfangsefninu.
„Það sem er svo fallegt er að það eiga til dæmis allir einhverjar djúsí fjölskyldusögur sem eru ekki endilega glæpasögur en fjalla kannski um hetjudáð á hafi eða eitthvað í þá áttina og vilja geta gert því skil en vita ekki hvar þau eiga að byrja.“
Snærós hefur starfað innan íslenskra fjölmiðla í yfir áratug, fyrst sem blaðamaður og síðar sem stjórnandi og í dagskrárgerð í ljósvakamiðlum. Hún er jafnframt eigandi Glerþaksins ehf.
„Ég er bara þannig að mér leiðist ef ég er ekki að læra eitthvað nýtt.“
Hún kennir um þessar mundir blaðamennsku og greinaskrif við Metropolitan-háskólann í Búdapest. Hún kemur svo til með að kenna námskeið um Listmarkaðinn og viðskipti með list við Háskóla Íslands á vorönn 2026.
„Ég er búin að vera að kenna blaðamennsku á háskólastigi í Búdapest og er svo að fara að kenna blaðamennsku við Háskólann á Akureyri í haust. Ég er bara þannig að mér leiðist ef ég er ekki að læra eitthvað nýtt.“
Snærós segir það mjög áhugavert að kenna nemendum, sem komi jafnframt frá löndum eins og Kína og Kasakstan, sem búa við lítið sem ekkert málfrelsi.
„Hér er maður oft að glíma við fólk sem hefur aldrei lesið fréttir af frjálsum miðlum. Þannig maður þarf því að byrja á grunninum og segja þeim hvað er frétt og hvað er ekki frétt. Það var mikil áskorun fyrir mig þar sem margir nemendur hér höfðu engan grunn í því sem við flokkum sem gæðablaðamennsku.“