Ítalski vínframleiðandinn David Campari-Milano hefur ákveðið að Simon Hunt muni taka við sem nýr forstjóri fyrirtækisins. Fyrrum forstjóri, Matteo Fantacchiotti, lét af störfum í september á þessu ári af persónulegum ástæðum.
Hunt mun taka við af þeim Paolo Marchesini, fjármála- og rekstrarstjóra, og Fabio Di Fede, aðalráðgjafa og viðskiptaþróunarstjóra, sem ráðnir voru sem bráðabirgðaforstjórar.
Komandi forstjóri gengur til liðs við Campari, sem framleiðir meðal annars hinn vinsæla drykk Aperol, eftir 30 ára reynslu í lúxusdrykkjaiðnaðinum. Hunt hóf feril sinn hjá Diageo, framleiðanda Johnnie Walker og Smirnoff og hefur einnig unnið hjá franska fyrirtækinu Pernod Ricard.
Hlutabréf Campari hækkuðu um 4,8% í kjölfar tilkynningarinnar en gengi félagsins hefur lækkað um 40% frá áramótum sökum minnkandi eftirspurnar, sérstaklega í Bandaríkjunum.