ChangeGroup átti hagkvæmasta tilboðið í samkeppni um fjármálaþjónustu á Keflavíkurflugvelli. ChangeGroup tekur við gjaldeyrisþjónustu á Keflavíkurflugvelli í byrjun febrúar 2024. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia.
ChangeGroup er alþjóðlegt fyrirtæki sem sérhæfir sig í fjármálaþjónustu á alþjóðaflugvöllum. Það var með samskonar rekstur í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli á tíunda áratug síðustu aldar.
Fyrirtækið verður með tvær gjaldeyrisskiptastöðvar á flugvellinum, eitt rými fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts og gjaldeyrishraðbanka víða um flugstöðina eftir þörfum.
Opnað var fyrir útboð fyrir fjármálaþjónustu á fyrra hluta þessa árs og sendu þrjú fyrirtæki inn lokatilboð. Boðinn var út, til fimm ára, rekstur gjaldeyrisþjónustu, hraðbanka og þjónustu vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts á Keflavíkurflugvelli.
„Við mat á tilboðunum var horft til tveggja meginþátta, annars vegar fjárhagslegra og hins vegar tæknilegra þátta sem snúa að þjónustu við viðskiptavini, hönnun og sjálfbærni. Sérfræðiteymi eru á bak við matsflokkana,“ segir í tilkynningu Isavia.