Íslenska hátæknifyrirtækið Controlant hefur tryggt sér samtals 80 milljóna dala fjármögnun, sem samsvarar um 11 milljörðum íslenskra króna, til þess að styðja við áframhaldandi vöruþróun og markaðssókn félagsins.

Samhliða tilkynnir félagið um fækkun starfsfólks, líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrr í dag, vegna samdráttar í COVID-19 tengdum verkefnum, að því er segir í tilkynningu.

Íslenska hátæknifyrirtækið Controlant hefur tryggt sér samtals 80 milljóna dala fjármögnun, sem samsvarar um 11 milljörðum íslenskra króna, til þess að styðja við áframhaldandi vöruþróun og markaðssókn félagsins.

Samhliða tilkynnir félagið um fækkun starfsfólks, líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrr í dag, vegna samdráttar í COVID-19 tengdum verkefnum, að því er segir í tilkynningu.

Um er að ræða annars vegar um 40 milljóna dala fjármögnun sem leidd var af Gildi lífeyrissjóði með þátttöku annarra lífeyrissjóða ásamt einkafjárfestum og núverandi hluthöfum. Fjármögnunin kemur til viðbótar við 40 dala milljóna lánsfjármögnun frá breska sjóðinum Apax Credit, sem lokið var í september síðastliðnum.

Controlant gegndi lykilhlutverki í dreifingu bólefna í heimsfaraldrinum og hefur vaktað yfir 6 milljarða bóluefnaskammta á undanförnum þremur árum.

„Verkefnið krafðist mikils mannafla og verður samdráttur í því til þess að samtals verða um 80 störf lögð niður þvert á deildir og starfsstöðvar,“ segir í tilkynningunni.

Félagið segir að þessi aðgerð sé til þess fallin að styðja við framtíðarstefnu Controlant þar sem áhersla verður lögð á frekari uppbyggingu kjarnastarfsemi félagsins í samstarfi við viðskiptavini sem telja mörg af stærstu lyfjafyrirtækjum heims. Í kjölfar þessara breytinga starfar í dag yfir 450 starfsfólks hjá Controlant í fimm löndum.

„Í dag tilkynnum við bæði um fjármögnun félagsins og fækkun starfsfólks. Undanfarin ár hefur framúrskarandi teymi starfsfólks hjá Controlant tryggt félaginu leiðandi stöðu á sviði rauntíma vöktunarlausna fyrir aðfangakeðjur lyfja og saman lögðum við okkar lóð á vogarskálarnar við að mæta gríðarlegri áskorun um dreifingu yfir 6 milljarða bóluefnaskammta á tímum heimsfaraldurs,“ segir Gísli Herjólfsson, forstjóri og einn stofnenda Controlant.

„Á sama tíma og vöxtur kjarnastarfsemi er sterkur og áhugi á lausnum félagins hefur aldrei verið meiri, mun umfang COVID verkefnisins minnka umtalsvert á næstu misserum. Til að mæta þeim samdrætti þurftum við að taka þá erfiðu ákvörðun að fækka starfsfólki þvert á svið félagsins. Við kveðjum góða samstarfsfélaga með trega en erum á sama tíma stolt af því sem við höfum áorkað saman.

Við höfum tryggt 80 milljóna dala fjármögnun sem styrkir áframhaldandi vöruþróun og markaðssókn Controlant. Við metum mikils stuðninginn og traustið sem að hluthafar og fjárfestar bera til okkar, þar á meðal íslensku lífeyrissjóðirnir og Apax Credit. Tækifærin sem felast í því að umbylta einni mikilvægustu aðfangakeðju heims eru gífurleg og þar erum við í sterkri stöðu með tryggan fjárhagslegan grunn og skýra framtíðarsýn.

Ég er fullur bjartsýni á framtíð Controlant og er sannfærður um að saman munum við gera sýn félagsins um að útrýma sóun í aðfangakeðju lyfja að veruleika.“

„Við hjá Gildi erum ánægð að koma að hlutafjáraukningu Controlant á þessum tímapunkti og styðja við félagið í næsta kafla þess í átt til frekari vaxtar. Eftir rýni okkar á starfsemi félagsins, samkeppnislegri stöðu þess og markaðstækifærum erum við bjartsýn á horfurnar framundan. Við höfum mikla trú á vaxtartækifærum Controlant til framtíðar og erum spennt að sjá félagið taka næstu skref á þeirri vegferð,“ segir Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar hjá Gildi.