Carbon Recycling International (CRI) hefur undirritað samstarfssamning við indverska ráðgjafa- og verkfræðifyrirtækið Dastur Energy um samstarf í tengslum við markaðsetningu, þróun viðskiptatækifæra, sölu tæknileyfa og verkfræðiþjónustu byggða á ETL tækni félagsins á Indlandi. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu. ETL tækni félagsins byggir á umbreytingu koltvísýrings sem losaður er af iðnaði í metanól sem kemur í stað hráefnis úr jarðolíu og hefur mun minni umhverfisáhrif.
Dastur Energy er hluti af Dastur samsteypunni sem stofnuð var árið 1955 og er með höfuðstöðvar í Kolkata á Indlandi en þau starfrækja skrifstofur víða um heim. Dastur Energy sérhæfir sig í grænum orku- og innviðaverkefnum og er, að því er kemur fram í tilkynningu, leiðandi aðili á Indlandi á sviði kolefnisföngunar og aukinni sjálfbærni í iðnaði.
„Sala metanóls á Indlandsmarkaði er í örum vexti og er nú um 2,5 milljónir tonna á ársgrundvelli. Gert er ráð fyrir að stærð markaðar nemi meira en 7,5 milljónum tonna á ári innan 10 ára. Stefna indverskra stjórnvalda styður aukna notkun metanóls sem eldsneyti með það að markmiði að draga úr loftmengun og losun gróðurhúsalofttegunda og auka hlut innlendra orkugjafa í hagkerfinu,“ segir í fréttatilkynningu CRI.
„Efnahagslega hagkvæmar aðferðir til þess að nýta koltvísýring er lykilatriði í því að hraða alþjóðlegum aðgerðum til þess að draga úr kolefnislosun. Við sjáum veruleg tækifæri á Indlandi fyrir metanól sem framleitt er með sjálfbærum hætti. ETL tæknilausn CRI er ein sú besta í heiminum í dag. Það er okkur sönn ánægja að fá CRI til samstarfs við okkur að koma þessari einstöku tækni á framfæri við framsækin indversk fyrirtæki í opinbera- og einkageiranum, sem leita eftir grænu metanóli sem hluta af sínu vöruframboði,“ er haft eftir Atanu Mukherjee, forstjóra Dastur Energy International Inc.
Hvert verkefni geti skilað milljarði króna í tekjur
CRI hlaut styrk úr Tækniþróunarsjóði til stuðnings við frekari markaðssókn fyrir ETL tæknina á Indlandi. Í fréttatilkynningu segir að CRI hafi jafnframt hlotið slíkan styrk fyrir markaðssókn í Kína árið 2016 og það markaðsstarf hafi borið ríkulegan árangur en tvö stór verkefni séu nú í gangi þar sem ETL tæknin sé nýtt. Þær verksmiðjur sem eru nú í byggingu í Kína munu hvor um sig framleiða meira en 100.000 tonn af metanóli á ári. Við framleiðsluna muni hver verksmiðja koma í veg fyrir að á ári hverju muni 375.000 tonn af koltvísýringi fara beint út í andrúmsloftið. Til samanburðar sé það sama magn og allur bílafloti Íslendinga losar á ári. Hvert slíkt verkefni geti skilað fyrirtækinu sem nemur ríflega milljarði króna í tekjur.
„Öflugur samstarfsaðili eins og Dastur, ásamt styrkveitingum úr Tækniþróunarsjóði gerir CRI mögulegt að sækja fram á nýjan markað þar sem mikil vaxtartækifæri eru fyrir hendi. Umhverfisvæn tækni eins og sú sem CRI hefur þróað mun gegna lykilhlutverki við þær nauðsynlegu umbreytingar í iðnaði og á orkumarkaði sem framundan eru. Það verður ánægjulegt að sjá íslenska umhverfistækni á Indlandsmarkaði,“ segir Björk Kristjánsdóttir, forstjóri CRI, í fréttatilkynningu.