Öryrkjabandalag Íslands, ÖBÍ, hafur sent frá sér tilkynningu þar sem þau lýsa furðu yfir ummælum Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og fréttatilkynningu Reykjavíkurborgar um að málaflokkur fatlaðs fólks ógni fjárhagslegri sjálfbærni borgarinnar.
„ÖBÍ þykir óásættanlegt að viðkvæmur samfélagshópur sé tekinn út fyrir sviga einn og sér til þess að útskýra hallarekstur borgarinnar.“
Reykjavíkurborg birti uppfærða fjárhagsáætlun í gær þar sem áætlað er að 15 milljarða króna hallarekstur verði af A-hluta borgarinnar í ár. Í tilkynningu borgarinnar gerði Dagur málefni fatlaðs fólks að umfjöllunarefni og sagði að vanfjármögnun ríkisins á rekstri þessa málaflokks „ógni nú fjárhagslegri sjálfbærni borgarinnar“.
„Án skilnings frá ríkinu á fjármögnun þeirrar þjónustu sem ríkið sjálft gerir kröfu um, þá verður þessi málaflokkur vanfjármagnaður og það er ekki bara grafalvarlegt fyrir þjónustu sveitarfélaga og fjárhag heldur bitnar það helst á þeim sem eiga rétt á þjónustunni og bíða frekari uppbyggingar í honum,“ segir Dagur í tilkynningunni.
Framsetningin „alvarleg og hreinlega meiðandi“
ÖBÍ segir rétt að notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) og aðrir kostnaðarþættir í málaflokknum hafi ekki verið kostnaðarmetnir almennilega. ÖBÍ tekur að þessu leyti undir ákall borgarstjóra og Sambands íslenskra sveitarfélaga um að ríkið tryggi fjármögnun málaflokksins.
„Það er aftur á móti lögbundin skylda sveitarfélaga að tryggja að mannréttindi fatlaðs fólks séu virt og að fatlað fólk njóti réttar síns til þátttöku í samfélaginu.“
ÖBÍ segist því ekki geta sætt sig við tilkynningu borgarinnar, stærsta sveitarfélags landsins, um að rekstur málaflokks fatlaðs fólks hafi farið sívaxandi á umliðnum árum og ógni fjárhagslegri sjálfbærni borgarinnar.
„Þessi framsetning er til þess fallin að fötluðu fólki sé kennt um hallareksturinn. Hún er því alvarleg og hreinlega meiðandi, enda ber fatlað fólk ekki sjálft ábyrgð á rekstrinum né fjármögnuninni.“
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka segir það vera forkastanlegt að forsvarsmaður stærsta sveitarfélags landsins, sem eigi að vera öðrum til fyrirmyndar, láti þetta frá sér.
„Þessi málflutningur ýtir undir jaðarsetningu fatlaðs fólks og slæmt viðhorf í garð þess. Þetta snýst um mannréttindi og lögbundnar skyldur og það ber að virða,“ segir Þuríður.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, benti á í viðtali við RÚV í gær að málarekstur fatlaðs fólks hafi kostað 6,7 milljarða króna árið 2021. Miðað við kostnað á síðasta ári megi ætla að þessi kostnaðarliður vegi minna en helming af áætluðum 15,3 milljarða króna halla A-hluta borgarinnar í ár.