Davíð Helgason, einn stofnenda hugbúnaðarfyrirtækisins Unity Software, seldi hlutabréf í félaginu fyrir ríflega 4,5 milljónir dala, eða sem nemur hátt í 630 milljónum króna, á föstudaginn síðasta. Davíð seldi alls 150 þúsund hluti á ríflega 30 dali á hlut.
Þetta er þriðja söluumferð Davíðs á hlutabréfum í Unity síðan í september síðastliðnum. Hann seldi í félaginu fyrir samtals um 1,4 milljarða króna í fyrra, annars vegar í september og hins vegar í desember.
Með ofangreindri sölu er heildarsöluandvirði Davíðs í Unity frá ársbyrjun 2021 komið upp í 188 milljónir dala samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins. Það samsvarar um 26 milljörðum króna miðað við núverandi gengi krónunnar.
Davíð á nú tæplega 7,9 milljónir hluta, eða 1,95% eignarhlut, í Unity. Eignarhlutur hans er um 213 milljónir dala að markaðsvirði, eða sem nemur um 29,5 milljörðum króna.
Gengið hækkaði um þriðjung í síðustu viku
Unity birti ársuppgjör fyrir opnun markaða á fimmtudaginn síðasta. Hlutabréfaverð Unity hækkaði um samtals 32% á fimmtudaginn og föstudaginn og stóð í 28,34 dölum á hlut í lok síðustu viku, en hefur lækkað aðeins í viðskiptum dagsins. Dagslokagengi félagsins var síðast hærra í mars 2024.
Tekjur Unity sem er hvað þekktast fyrir að þróa hugbúnað fyrir tölvuleikjagerð, námu 457 milljónum dala í fyrra, eða yfir 63 milljörðum króna, og drógust saman um 25% frá fyrra ári. Það var engu að síður yfir spám greinenda.
Viðskiptamiðlar vestanhafs greindu frá því að greinandi HSBC hefði hækkað verðmatsgengi sitt á Unity úr 20,7 í 34 dali eftir birtingu uppgjörsins. Hann lýsti nýja auglýsingalíkani (e. ad model) félagsins fyrir snjallsíma, Vector, sem styður sig við gervigreind, sem mögulegum leikbreyti sem gæti veitt AppLovin samkeppni til lengri tíma.
Virði keppinauts Unity sjöfaldast á einu ári
AppLovin gerði tilraun árið 2022 til að sameinast Unity og lagði fram tilboð sem fól í sér að hluthafar Unity hefðu eignast 55% af hlutafé sameinaðs félags. Stjórn Unity hafnaði tilboðinu og ákvað fremur að einbeita sér að kaupum á fyrirtækinu ironSource.
Hlutabréfaverð AppLovin hefur nærri sjöfaldast á síðustu tólf mánuðum, ekki síst vegna gervigreindar auglýsingalíkans félagsins fyrir tölvuleiki á snjallsímum. Tekjur AppLovin á fjórða ársfjórðungi jukust um 44% milli ára og námu 1,37 milljörðum dala, og hagnaður á hlut nærri fjórfaldaðist.
Í nýlegri umfjöllun Wall Street Journal segir að AppLovin hafi náð góðum árangri í að tengja auglýsendur við spilendur tölvuleikja á snjallsímum. Yfir einn milljarður einstaklinga spila tölvuleiki á símum sínum á hverjum degi og er því um að ræða markaðshóp á við TikTok og helstu samfélagsmiðla Meta.
Greinandi hjá Benchmark segir að lengi hafi símatölvuleikir einkum auglýst aðra tölvuleiki, og þar með leiki samkeppnisaðila, þar sem erfitt reyndist að meta hvaða vörur spilendur hafa áhuga á, aðrar en tölvuleikina sjálfa.
Gervigreindarlíkan AppLovin hafi gert tölvuleikjafyrirtækjum kleift að auglýsa í meira mæli vörur í öðrum atvinnugreinum og er t.d. gert ráð fyrir að netverslanir standi undir 10% af tekjum fyrirtækisins í ár. Líkanið safnar gögnum um spilendur, þar á meðal hvaða auglýsingar skila mestri notendaþátttöku (e. engagement), sem eru síðan nýtt til að miða tilteknum auglýsingum á ákveðna hópa.
Að mati greinenda er AppLovin með yfirhöndina yfir keppinautum á borð við Unit og Google á þessum markaði, vegna árangurs líkansins til þessa.