Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær fór á dögunum fram aðalmeðferð í skaðabótamáli þrotabús Wow Air gegn Títan og eigenda þess Skúla Mogensen, auk fyrrverandi stjórnarmanna. Krefst þrotabúið að Skúli og fyrrverandi stjórnarmennirnir greiði þrotabúinu 3 milljónir dala í skaðabætur. Skiptastjórar vilja meina að kaup- og söluréttarsamningar sem tengdust fjórum Airbus vélum sem Wow Air var með á leigu hafi valdið Wow Air tjóni. Varnaraðilar segja samningana þvert á móti hafa aflað Wow Air töluverðra fjármuna.

Í málflutningsræðu sinni sagði Sveinn Andri Sveinsson, annar skiptastjóra þrotabús Wow Air, meðal annars að ekki mætti betur sjá en að í tilfellum allra fjögurra leigusamninga hafi verið um kaupleigusamninga að ræða. Vísaði hann til viljayfirlýsingar milli Wow Air og leigusalanna, þar sem komið hafi fram að Wow Air hefði kauprétt á flugvélunum. Títan hafi aftur á móti síðar gert samning við leigusalana um kauprétt að vélunum fjórum án þess að greiða gjald fyrir kaupréttinn sjálfan. Einnig hafi verið samið um að Wow Air myndi greiða Títan ábyrgaðarþóknun fyrir fyrrnefnda móðurfélagsábyrgð.

Í máli verjenda kom fram að árin 2015 og 2016 hafi verið ákveðið að Wow air skyldi taka yfir kaupréttina á vélunum fjórum, með því að greiða Tít­an 12 millj­ón­ir dala, eða 3 millj­ón­ir fyrir kauprétt á hverri vél. 3,1 milljón dala voru greiddar á fyrri stigum og eftirstöðvar voru greiddar með útgáfu nýs hlutafjár til eigandans Títan árið 2017.

Í ræðu sinni vísaði Sveinn Andri til úttektar sem Deloitte vann að beiðni skiptastjóra. Þar komi fram að erfitt sé að greina viðskiptalegar forsendur sem byggju að baki svo hárrar þóknunar. Telja skiptastjórar að Títan hafi með samningunum auðgast á kostnað Wow Air með ólögmætum og ósanngjörnum samningi. Um hafi verið að ræða framvirkan samning sem Wow Air hafi borið alla áhættuna af en Títan enga. Stjórn Wow Air hafi svo bakað félaginu tjónshættu með því að veita þessum samningum blessun sína.

Títan tekið á sig mikla áhættu

Lögmenn varnaraðila sögðu þetta mat skiptastjóranna fjarri lagi. Í málflutningsræðu sinni sagði Reimar Pétursson, lögmaður Skúla og Títan, að leigusamningar vélanna fjögurra hefðu verið hagstæðir en þeir hafi þó ekki hafa innihaldið kaupréttarákvæði líkt og skiptastjórar haldi fram. Hann sagði ljóst að leigusamningarnir hefðu ekki komið til án móðurfélagsábyrgðar en Sveinn Andri hafði sagt í málflutningsræðu sinni að engar sannanir væru fyrir að móðurfélagsábyrgðin væri forsenda leigusamningsins.

Reimar hafnaði því að Títan hafi ekki tekið á sig neina áhættu og sagði félagið þvert á móti hafa tekið á sig gífurlega áhættu með því að gangast í ábyrgð fyrir leigugreiðslur, með því að taka á sig að kaupa allar vélarnar fjórar á um 130-150 milljónir dala ef til vanefnda Wow Air kæmi á leigugreiðslum.

Þá sagði Reimar af og frá að Títan hafi auðgast á kostnað Wow Air. Þvert á móti hafi 8,9 milljónir dala af 12 milljónunum sem Wow Air greiddi Títan fyrir kaupréttina verið greiddar út í formi hlutafjár til Títan. Eftirstandandi 3 milljónir dala hafi verið greiddar með fjármunum félagsins. Þegar upp var staðið hafi Títan því fengið greiddar 3 milljónir dala, auk hlutabréfa sem við fall Wow Air urðu verðlaus. Benti hann jafnframt á að skiptastjórar krefðust þess ekki að samningurinn yrði dæmdur ógildur. Það væri vegna þess að ef samningnum yrði rift þyrfti Wow Air að greiða Títan nærri 6 milljónir dala til baka, sem myndi skilja búið eftir í mun verri málum en við það að samningurinn haldi gildi sínu. Auk þess þyrfti að taka með inn í jöfnuna fjárhagslegan ávinning Wow Air af rekstri vélanna.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.